„Ég get ímyndað mér að þetta verði mjög óþægilegt fyrir starfsfólk flugfélaga sem þarf að fara í þessi verk sem ég get ekki ímyndað mér að nokkur hafi ánægju af að framkvæma,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, um afleiðingar ferðabanns Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Mikill fjöldi flugfarþega fari nú um Keflavíkurflugvöll á leið sinni til Bandaríkjanna og því hafi tilskipun Trumps mögulega töluverð áhrif hér á landi. Hún segir að Guðlaugur Þór Þórðarson, nýskipaður utanríkisráðherra, hafi brugðist rétt við með því að koma kvörtun á framfæri við yfirvöld í Bandaríkjunum. Hvað sé hægt að gera umfram það sé erfitt að segja til um.
mbl.is ræddi við Birgittu á Alþingi í dag um bann við komu fólks frá sjö múslímalöndum til Bandaríkjanna, sem í gær varð til þess að íslenski ríkisborgarinn Meisam Rafiei þurfti að yfirgefa flugvél WOW Air rétt áður en hún átti að taka á loft.
Í dag kom fram að forsvarsmenn flugfélagsins óttuðust um flugrekstrarleyfi í Bandaríkjunum væri tilskipunum Bandaríkjastjórnar ekki fylgt um borð í vélum þess.