Sigurlíkur Le Pen aukast

Marine Le Pen.
Marine Le Pen. AFP

Líkurnar á sigri franska þjóðernissinnans Marine Le Pen í forsetakosningum í Frakklandi í apríl og maí eru taldar hafa aukist eftir að forsetaefni hægrimanna, François Fillon, var sakaður um spillingu, og róttækur vinstrimaður, Benoît Hamon, var valinn forsetaefni Sósíalistaflokksins. Le Pen hefur meðal annars lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Frakklands að Evrópusambandinu og vill að Frakkar leggi niður evruna.

Francois Fillon.
Francois Fillon. AFP

Á litla möguleika

Hamon hefur verið líkt við Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins í Bretlandi, og talið er að hann eigi sáralitla möguleika á að verða næsti forseti Frakklands. Hann hefur meðal annars boðað að vinnuvikan verði stytt úr 35 stundum í 32 og öllum íbúum landsins verði greidd borgaralaun, um 750 evrur (94.000 krónur) á mánuði, óháð öðrum tekjum þeirra. Talið er að þessi laun myndu kosta ríkissjóð Frakklands 480 milljarða evra (jafnvirði 60.000 milljarða króna) á ári. Andstæðingar Hamons í Sósíalistaflokknum segja að ógjörningur yrði að koma stefnu hans í framkvæmd og lýsa honum sem draumóramanni.

Benoît Hamon.
Benoît Hamon. AFP

Talið er að margir miðjumenn í Sósíalistaflokknum snúist gegn Hamon í forsetakosningunum og styðji Emmanuel Macron, fyrrverandi efnahagsmálaráðherra í stjórn Sósíalistaflokksins. Macron sagði sig úr honum og stofnaði nýjan stjórnmálaflokk í ágúst til að bjóða sig fram til forseta.

Fillon í vörn

Síðustu vikur hefur Fillon, forsetaefni Lýðveldisflokksins, verið talinn sigurstranglegastur en hann hefur átt undir högg að sækja síðustu daga vegna ásakana um að eiginkona hans hafi fengið laun sem aðstoðarmaður hans án þess að hafa í raun starfað fyrir hann. Blaðið Le Canard Enchaîné segir að eiginkonan hafi fengið hálfa milljón evra (62 milljónir króna) á árunum 1998 til 2012 þegar hún var aðstoðarmaður hans. Tvö börn þeirra fengu einnig samtals 84.000 evrur fyrir aðstoð við hann sem þingmann. Franskir þingmenn mega ráða eiginkonu sína og börn sem aðstoðarmenn en blaðið segist ekki hafa fundið neinar vísbendingar um að kona Fillons hafi í raun unnið fyrir hann. Eiginkonan er einnig sögð hafa fengið laun sem ráðgjafi bókmenntatímarits í eigu auðugs vinar Fillons án þess að hafa starfað fyrir það.

Emmanuel Macron.
Emmanuel Macron. AFP

Franska lögreglan hóf rannsókn á málinu og yfirheyrði hjónin í fyrradag. Þau neituðu bæði þessum ásökunum og Fillon lagði fram skjöl sem hann telur sanna að þær séu rangar.

Hver sem niðurstaða rannsóknarinnar verður er talið að ásakanirnar skaði Fillon sem hafði lagt áherslu á að hann væri heiðarlegur stjórnmálamaður sem kjósendurnir gætu treyst. Hann hafði einnig gagnrýnt „ríkisbáknið“ og lagt til að útgjöld ríkisins yrðu minnkuð með því að fækka starfsmönnum þess um hálfa milljón.

Macron í sókn

Samkvæmt skoðanakönnun, sem birt var á sunnudag, hefur Macron notið góðs af vandræðum Fillons. Hún bendir til þess að 25% ætli að kjósa Le Pen í fyrri umferð kosninganna 23. apríl, 21% styðji Fillon og 20% Macron. Hamon mældist með aðeins 13% fylgi.

Ef marka má könnunina er þó ólíklegt að Le Pen sigri í annarri umferð kosninganna 7. maí þegar kosið verður á milli tveggja efstu forsetaefnanna. Hún bendir til þess að Fillon myndi sigra Le Pen með 60% atkvæða gegn 40% ef valið stæði á milli þeirra í síðari umferðinni. Macron myndi sigra Le Pen með 65% atkvæða gegn 35% og næði einnig kjöri með 58% fylgi ef valið stæði á milli hans og Fillons.

Fillon hefur lýst Macron sem „dæmigerðum yfirstéttarmanni sem er algerlega úr tengslum við raunveruleikann í samfélaginu“. Stuðningsmenn Fillons hafa einnig vakið athygli á nýrri bók þar sem Macron er gagnrýndur fyrir kostnaðarsöm veisluhöld þegar hann var efnahagsmálaráðherra.

Titringur á mörkuðum

Þótt kannanirnar bendi til þess að ólíklegt sé að Le Pen sigri í annarri umferðinni er ekki hægt að útiloka að hún komi á óvart eins og Donald Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember og andstæðingar Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi í júní síðastliðnum.

Forsetaframbjóðendur í Frakklandi: Michele Alliot-Marie,Les Republicains (LR) hægri flokknum, Nathalie …
Forsetaframbjóðendur í Frakklandi: Michele Alliot-Marie,Les Republicains (LR) hægri flokknum, Nathalie Arthaud, Lutte Ouvriere vinstri flokknum, Jacques Cheminade ,Solidarite et Progres, vinstri flokknum, Nicolas Dupont-Aignan Debout la France (DLF) hægri flokknum, Bastien Faudot Movement Republicain et Citoyen flokknum,(MRC), Francois Fillon, Les Republicains (LR),, Benoit Hamon, Sósíalistaflokknum (PS), Yannick Jadot,Europe-Ecologie-Les Verts (EELV) græningjaflokknum. Frambjóðandi En-Marche hreyfingarinnar, Emmanuel Macron, Jean-Luc Melenchon frambjóðandi La France insoumise vinstribandalagsins, Marine Le Pen, Front National (FN) og Philippe Poutou frambjóðandi anti-kapítalistahreyfingarinnar (NPA). AFP

Auknar sigurlíkur Le Pen vegna klofnings sósíalista og vandræða Fillons hafa valdið titringi á fjármálamörkuðum í Frakklandi, að því er fram kemur í fréttaskýringu Ambrose Evans-Pritchards, viðskiptaritstjóra breska dagblaðsins The Telegraph. „Markaðirnir eru farnir að líta aftur á Frakkland sem óöruggt land,“ hefur hann eftir franska hagfræðingnum Brigitte Granville.

Evans-Pritchard segir að loforð Le Pen um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina að ESB og taka upp franska frankann að nýju geti orðið evrusamstarfinu að falli. „Evran hættir að vera til um leið og Frakkland leggur hana niður,“ sagði Le Pen eitt sinn í viðtali við The Telegraph. Hún skírskotaði til þess að landið er næststærsta hagkerfi evrusvæðisins.

„Við þorðum aldrei að ímynda okkar að þetta myndi fara svona vel fyrir okkur,“ hefur Evans-Pritchard eftir ráðgjafa Þjóðfylkingarinnar. Le Pen telur sig eiga mikla möguleika á sigri í síðari umferðinni ef kosið verður á milli hennar og Macrons. „Það er einvígi milli föðurlandsvinar og hnattvæðingarsinna,“ sagði hún.

Breytti stefnunni í evrumálum

Le Pen varð í þriðja sæti, með 17,9% atkvæðanna, í fyrri umferð forsetakosninganna árið 2012. Á síðustu árum hefur hún mildað stefnu sína með það fyrir augum að auka fylgi sitt nógu mikið til að geta átt möguleika á að ná kjöri. Grundvallarstefna hennar hefur þó ekki breyst. Hún vill enn að Frakkar segi sig úr ESB og endurheimti stjórn á landamærunum, hyggst herða innflytjendalöggjöfina, bæta tengslin við Rússland og taka upp dauðarefsingar að nýju.

Skoðanakannanir benda til þess að meirihluti Frakka sé hlynntur því að Frakkland verði áfram í ESB en að landið endurheimti völd frá Brussel. Í síðustu kosningum boðaði Le Pen að evran yrði lögð niður í einu vetfangi en hún hefur nú mildað þá stefnu sína í von um að auka sigurlíkur sínar. Hún segist ætla að taka upp franska frankann, sem yrði notaður samhliða evrunni í fyrstu. Hún kveðst ætla að hefja samningaviðræður við önnur evruríki, sem eru óánægð með evrusamstarfið, um að þau taki upp eigin gjaldmiðla og stofni nýja myntkörfu. Þessar viðræður eiga að standa í sex mánuði. Nýi frankinn yrði síðan tengdur við körfu þessara gjaldmiðla og evran lögð niður.

Le Pen vonar að með þessari breytingu fái hún atkvæði kjósenda sem óttast að skyndilegt afnám evrunnar myndi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Andstæðingar hennar segja að þessi áform hennar séu óraunhæf og telja að samningaviðræður um slíka myntkörfu yrðu mjög erfiðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka