Tæplega þriðjungur Bandaríkjamanna telur sig öruggari eftir að tilskipun Donald Trump um bann við komu flóttafólks og borgara sjö ríkja til Bandaríkjanna tók gildi.
Þetta kemur fram í niðurstöðum á könnun sem fréttastofa Reuters og greiningarfyrirtækið Ipsos lögðu fyrir fólk í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna dagana 30. og 31. janúar.
Trump segir tilskipunina auka öryggi Bandaríkjanna fyrir hryðjuverkum en miðað við niðurstöðurnar má ætla að meirihluti landsmanna sé því ósammála.
Í ljós kom að um það bil helmingur þjóðarinnar styður tilskipunina en aðeins 31% taldi að bannið gerði það öruggara. 33% sögðust ekki halda að bannið hefði nein áhrif og 26% sagði bannið hafa neikvæð áhrif á öryggistilfinningu sína. 10% sögðust ekki vita hvaða áhrif bannið hefði á öryggi sitt.
Fylgismenn Demókrataflokksins voru þrisvar sinnum líklegri en fylgismenn Repúblikanaflokksins til að vera sammála því að „Bandaríkin ættu að halda áfram að taka á móti innflytjendum og flóttamönnum.“
Aftur á móti voru fylgismenn Repúblikanaflokksins þrisvar sinnum líklegri til að vera sammála eftirfarandi: „Bann við komu fólks frá múslimalöndum er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir hryðjuverk.“
53% demókrata sögðust vera „mjög ósammála“ banninu á meðan að 51% Repúblikana sögðust vera „mjög sammála“ því. Alls sögðust 49% vera sammála tilskipuninni en 41% sögðust ósammála.
Svarendur voru 1.201 talsins en könnunin fór fram á ensku í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna.