Miðjumaðurinn Emmanuel Macron gæti orðið næsti forseti Frakklands en ný skoðanakönnun í franska dagblaðinu Les Echos bendir til þess að fylgi við hann hafi aukist í kjölfar dvínandi vinsælda hægrimannsins Francois Fillon vegna hneykslismáls.
Fram kemur í frétt blaðsins að Macron hafi 22-23% fylgi samkvæmt könnuninni en Fillon sé hins vegar kominn niður í 19-20%. Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar, mælist með mest fylgi en ef kosið yrði á milli hennar og Macrons í síðari umferð myndi hann fá 2/3 atkvæða.
Enn fremur segir að þessi staða sé heppileg fyrir Macron en hann hafi lýst því yfir að hann ætlaði að hefja sókn í kosningabaráttunni. Kosningarnar fara fram 23. apríl og síðari umferð þeirra 7. maí fái enginn frambjóðenda hreinan meirihluta í fyrri umferðinni.