Skærgulur bíll gamals manns í Bretlandi hefur valdið fjaðrafoki en bíllinn þykir skemma ásýnd þorpsins þar sem maðurinn er búsettur. Fjórtándu aldar þorpið Bibury þykir afar fallegt og ljósmyndavænt og þykir „banana-gulur“ bíllinn stinga í stúf við stíl þorpsins.
Í frétt Telegraph um málið má sjá myndir af gamla manninum með gula bílnum sínum. Húsin í Bibury eru meðal elstu íbúðarhúsa í Bretlandi en myndir af þorpinu er til að mynda að finna í fleiri milljónum vegabréfa breskra ríkisborgara.
Ekki eru allir sáttir við veru gula bílsins í Bibury en í síðustu viku voru framin skemmdarverk á bílnum þar sem orðið „move“ eða „færðu þig“ var rispað í lakk bílsins og rúða brotin. Bíllinn, sem er af gerðinni Vauxhall Corsa, er í eigu hins 84 ára gamla Peter Maddox sem er tannlæknir sem kominn er á eftirlaun.
Kostnaður við að laga skemmdirnar er sagður nema um 6.000 pundum eða rúmum 840.000 kr. og er bíllinn nú inni á verkstæði. Lögregla er með málið til rannsóknar en ekki er vitað hver var að verki þegar skemmdarverkin voru framin.
Tengdadóttir Maddox segir gamla manninn vissulega vera niðurbrotinn vegna málsins en fólkið í þorpinu hafi þó sýnt honum stuðning. Maddox flutti til Bibury eftir að konan hans lést fyrir 15 árum en bílinn keypti hann fyrir þremur árum og var ákaflega kátur með nýja bílinn sinn.
Frá árinu 2015 hafa þó borist kvartanir vegna bílsins og hann sagður eyðileggja ásýnd þorpsins og skemma annars fallegar myndir ferðamanna af þorpinu. Maddox hélt þó áfram að leggja bílnum í götunni sinni, þar sem hann gat hvergi annars staðar lagt, allt þar til skemmdarverkin voru framin í síðustu viku.