„Svokallaður“ dómari með fáránlega skoðun

Fjölmenn mótmæli fóru fram við bandaríska sendiráðið í London í …
Fjölmenn mótmæli fóru fram við bandaríska sendiráðið í London í dag. Þúsundir tóku þátt. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur heitið því að fá lögbanni, sem sett var á umdeilt ferðabann hans í gær, hnekkt. Ferðabannið nær til ríkisborgara sjö landa þar sem meirihluti íbúanna eru múslimar. 

Úr­sk­urður alríkisdóm­ar­ans, James Robart, í borg­inni Seattle gildir á landsvísu en hann féll í kjöl­far kæru frá rík­is­sak­sókn­ara Washingt­on-rík­is, Bobs Fergu­son. Lög­bannið gild­ir á meðan kæra Fergu­sons verður tek­in til skoðunar.

Í dag ákvað utanríkisráðuneytið að afturkalla ferðabannið að hluta vegna niðurstöðu dómarans. Það þýðir að vegabréfsáritanir um 60 þúsund manna, sem höfðu verið afturkallaðar, hafa aftur tekið gildi.

Frétt mbl.is: Lögbann á ferðabann Trumps

Trump hefur í dag kallað Robart „svokallaðan dómara“ sem hafi „fáránlegar“ skoðanir sem miði að því að taka vald frá Bandaríkjunum. 

Robart komst að því að ferðabann Trumps gengi gegn stjórnarskrá landsins. Í kjölfarið hafa nokkur flugfélög sagt að þau ætli að leyfa ríkisborgurum landanna sjö að fljúga með þeim til Bandaríkjanna. 

Orðrétt skrifaði Trump á Twitter eftir að dómurinn féll: „Skoðun þessa svokallaða dómara, sem í rauninni tekur valdið frá landi okkar, er fáránleg og verður hnekkt!“

„Þegar land getur ekki lengur ákveðið hver má koma og hver má fara, sérstaklega þegar um öryggissjónarmið er að ræða – þá er vandinn stór!“ skrifaði Trump í næstu færslu.

Ríkisstjórn Trumps heldur því fram að tilskipunin um ferðabannið, sem gefin var út í síðustu viku, hafi verið nauðsynleg til að vernda borgara Bandaríkjanna.

Bannið var sett á skyndilega. Það olli öngþveiti á flugvöllum og setti strik í reikninginn hjá mörgum sem voru á ferðalagi, m.a. þeim sem voru með græna kortið (landvistarleyfi) í Bandaríkjunum. Vísindasamfélagið hefur einnig miklar áhyggjur þar sem vísindamenn heimsins vinna þvert á landamæri við rannsóknir sína. Ferðafrelsi margra þeirra hefur nú verið skert.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert