Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur áfrýjað lögbanni sem alríkisdómari í Seattle setti á forsetatilskipun Donalds Trumps. Samkvæmt tilskipuninni var ríkisborgurum sjö landa, sem og flóttafólki, bannað að koma til Bandaríkjanna í tiltekinn tíma. Um helgina hafa flugfélög boðið fólk frá þessum löndum, með gildar vegabréfsáritanir, velkomið um borð í vélar sínar á leið til Bandaríkjanna.
Trump sagði í gær að niðurstaða „hins svokallaða dómara“ væri „fáránleg“ og hét því að fá henni hnekkt. Hann lét reiði sína bersýnilega í ljós á Twitter og hefur haldið því áfram. Í nýjustu færslu sinni segir hann að „vont fólk“ sé mjög ánægt með niðurstöðu dómarans.
Frétt mbl.is: Trump trítilóður á Twitter
Rúmlega vika er liðin síðan Trump skrifaði undir tilskipunina og hún tók gildi, öllum að óvörum. Landamæraeftirlitsmenn voru t.d. illa undirbúnir. Þetta olli öngþveiti á flugvöllum og hafði áhrif á ferðalög um 60 þúsund manna sem höfðu haft gildar vegabréfsáritanir sem felldar voru tímabundið úr gildi.
Á föstudag komst alríkisdómari í Seattle að þeirri niðurstöðu að ferðabannið bryti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar.
Um helgina hafa þúsundir manna mótmælt ákvörðunum Trumps víðsvegar um heim, m.a. í París, London og New York.
Trump er nú um helgina staddur í sumarleyfishúsi í Flórída. Um 2.000 manns mótmæltu í nágrenni þess í gærkvöldi.