Hafna beiðni ráðuneytisins

Bandarískur áfrýjunardómstóll hefur hafnað beiðni dómsmálaráðuneytisins um að heimila að bann við ferðum ríkisborgara sjö ríkja til landsins verði sett á aftur þegar í stað. Dómstóllinn gaf ríkisstjórninni frest þar til á morgun, mánudag, til að færa fram frekari rök fyrir beiðni sinni.

Alríkisdómari í Seattle setti á föstudag á bráðabirgðalögbann við forsetatilskipun Donalds Trumps sem takmarkaði ferðafrelsi borgara landanna sjö til Bandaríkjanna. Fólki sem þegar hafði fengið vegabréfsáritun var meinað að koma til landsins eftir að tilskipunin tók gildi fyrir rúmri viku.

Í kjölfar lögbanns alríkisdómarans var ferðabannið fellt úr gildi en Trump hét því að fá þeirri ákvörðun hnekkt. Í nótt að íslenskum tíma áfrýjaði dómsmálaráðuneytið því málinu til áfrýjunardómstóls og fór fram á að ferðabannið tæki þegar í stað gildi á ný. 

Í áfrýjun ráðuneytisins segir að lögbannið samsvari því að draga dómgreind Trumps í efa. Með því sé öryggi landsins stefnt í voða.

Lögbann alríkisdómarans gildir þar til dómstólar hafa fjallað um kæru ríkissaksóknara Washington-ríkis sem segir að ferðabannið beinist gegn múslimum og brjóti þannig í bága við stjórnarskrá landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka