Til varnar lýðræðinu

Forsíða Der Spiegel

Ritstjóri þýska tímaritsins Der Spiegel hefur varið forsíðu blaðsins þar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti er sýndur halda á afskornu höfði frelsisstyttunnar í annarri hendi og blóðugum hníf í hinni.

Sitt sýnist hverjum um forsíðuteikninguna en ritstjórinn segir hana svar tímaritsins við atlögum gegn lýðræðinu.

„Der Spiegel leitast ekki eftir því að storka neinum,“ sagði Klaus Brinkbaeumer í samtali við Reuters eftir að mikið fjaðrafok myndaðist á samfélagsmiðlum vegna forsíðunnar.

„Við viljum sýna um hvað þetta snýst; þetta snýst um lýðræði, þetta snýst um frelsi, þetta snýst um fjölmiðlafrelsi, frelsi réttlætisins og það er allt í verulegri hættu,“ sagði hann. „Þannig að við erum að verja lýðræðið [...] Eru þetta alvarlegir tímar? Já, það eru þeir.“

Alexander Graf Lambsdorff, flokksmaður Frjálsra demókrata og varaforseti Evrópuþingsins, kallaði forsíðuna „smekklausa“. Þá sagði Die Welt hana „skaða blaðamennsku“ á meðan Frankfurter Allgemeine Zeitung sagði hana nákvæmlega það sem Trump þyrfti; „afbakaða mynd af sér sem hann getur notað til að vinna að þeirri afbökuðu mynd sem hann hefur af fjölmiðlum.“

Guardian sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert