Yfirvöld í Amsterdam, höfuðborg Hollands, hafa sektað húsráðanda einn og umboðsskrifstofu um 297.000 evrur, eða rúmar 36 milljónir króna, vegna lagabrota við útleigu á íbúðum í gegnum Airbnb. AFP-fréttastofan segir umboðsskrifstofuna hafa brotið reglur borgarinnar með því að leigja út 11 íbúðir í miðborg Amsterdam í gegnum Airbnb.
„Okkur bárust kvartanir frá nágrönnunum sem kvörtuðu undan ónæði,“ sagði Jeanine Harders, talsmaður borgarinnar. „Rannsókn leiddi síðan í ljós að íbúðirnar voru leigðar út ólöglega.“
Eiganda íbúðanna og umboðsskrifstofunni er gert að greiða 13.500 evrur hvorum aðila fyrir hverja íbúðanna 11, sem allar eru í miðbæ Amsterdam.
„Þetta er venjulegt sektarupphæð, en þegar búið er að margfalda hana ellefu sinnum þá erum við komin upp í metupphæð,“ sagði Harders og bætti við að borgaryfirvöld hefðu sent út sektir vegna um 200 íbúða 2016.
Borgaryfirvöld og Airbnb komust að samkomulagi í desember í fyrra, sem takmarkar útleigu einkaheimila í borginni við 60 daga á ári. Samkomulagið gildir til ársloka 2018 og hétu forsvarsmenn Airbnb því að setja upp sérstakt talningakerfi á síðu sinni sem gerir þeim sem leigja út eignir sínar kleift að fylgjast með því hve marga daga þeir eru búnir að leigja íbúðirnar út og geti með þeim hætti forðast að brjóta lög.