Einangraður og finnst að sér þrengt

Donald Trump Bandaríkjaforseti tekur sér sæti á fundi með þingmönnum …
Donald Trump Bandaríkjaforseti tekur sér sæti á fundi með þingmönnum í Roosevelt-herbergi Hvíta hússins. AFP

Þó að Donald Trump Bandaríkjaforseti njóti þess að skipuleggja daginn fram undan strax við sólarupprás fæst mun skýrari mynd af Hvíta húsi hans að næturlagi.

Aðstoðarmenn hans tala saman í rökkri, því þeir kunna ekki á ljósrofana þar sem þeir koma saman í fundarherbergi ríkisstjórnarinnar. Að loknum fundum ráfa gestir um húsið og prófa ýmsa hurðarhúna, þar til þeir finna þann sem hleypir þeim loksins út.

Á þessum orðum hefst umfjöllun New York Times um fyrstu vikur forsetans í embætti og lífið innan veggja hins volduga húss við Pennsylvaníubraut. Byggt er á frásögnum fjölmargra vitna, innan raða starfsfólks Hvíta hússins og sömuleiðis nokkurra þeirra gesta sem heimsótt hafa forsetann. Öll krefjast þau nafnleyndar.

Einsamall á kvöldin

Fram kemur í greininni að alla jafna, um klukkan hálfsjö að kvöldi, en stundum seinna, tekur Trump á sig náðir í híbýlum sínum. Safnar hann þar orku á milli þess sem hann grípur til Twitter.

Þar sem eiginkona hans, Melania, og sonur þeirra Barron, hafa ákveðið að búa áfram í New York er Trump nánast alltaf einsamall um þetta leyti. Það er að segja þegar hann nýtur ekki návistar aðstoðarmanns síns til langs tíma, Keith Schiller, sem áður var rannsóknarlögreglumaður og síðar stjórnandi öryggismála auðkýfingsins.

Loks, þegar hann er ekki að horfa á sjónvarpið á baðsloppnum einum fata, eða í símanum að ræða við þá sem hjálpuðu honum í kosningabaráttunni, leggur hann stundum í leiðangra til að kanna framandi umhverfi nýju híbýla sinna.

Keith Schiller á gangi í Trump-turninum.
Keith Schiller á gangi í Trump-turninum. AFP

Klúðursleg innleiðing ferðabannsins

Á fyrstu tveimur vikum sínum í embætti hefur Trump tekist, ásamt óvenjufáum aðstoðarmönnum, en enginn þeirra hefur nokkra reynslu af starfi Hvíta hússins eða ríkisstjórnarinnar, að orsaka mikinn titring bæði heima fyrir og erlendis.

Því veldur fjöldi tilskipana, sem gerðar voru til að uppfylla kosningaloforð og einnig til að ögra erlendum þjóðarleiðtogum, að því er segir í umfjöllun New York Times. Einn helsti ráðgjafi Trumps, Steve Bannon, hefur auk þess sagt að hraðar hendur ráði nú för.

Á sama tíma er þó eitt orðið öllum ljóst, bæði bandamönnum Trumps og andstæðingum: Þegar kemur að því að stjórna, er það ekki hraðinn sem skiptir öllu máli.

Klúðursleg innleiðing tilskipunar hans, þar sem ríkisborgurum sjö ríkja var meinuð innganga í Bandaríkin, skoðanakannanir sem sýna stuðning við forsetann minni en við nokkurn annan forseta á fyrsta kjörtímabili síðan mælingar hófust, og ýmis önnur vandræðalegheit, hafa neytt Trump og starfsfólk hans til að hugsa upp á nýtt nálgun þeirra á stjórn ríkisins, sem hingað til hefur minnt á það hvernig kosningabaráttu hans var stjórnað, þar sem allt virtist á tjá og tundri.

Til marks um þetta hefur áfrýj­un­ar­dóm­stóll hafnað beiðni dóms­málaráðuneyt­is­ins um að heim­ila að bann við ferðum rík­is­borg­ara sjö ríkja til lands­ins verði sett á aft­ur þegar í stað. Dóm­stóll­inn gaf rík­is­stjórn­inni frest þar til í dag, mánu­dag, til að færa fram frek­ari rök fyr­ir beiðni sinni.

Trump hefur verið iðinn við að skrifa undir tilskipanir.
Trump hefur verið iðinn við að skrifa undir tilskipanir. AFP

Finnst sífellt meira að sér þrengt

Einangraður í Hvíta húsinu fær Trump nú lítið að sjá af aðdáendum sínum og stuðningsmönnum, sem hafa fram til þessa reynst honum mikilvæg uppspretta viðbragða og viðurkenningar.

Nú er svo komið að honum finnst sífellt meira að sér þrengt, vegna álags í starfinu og stöðugra mótmæla, sem er ein ástæða þess að hann neyddist til að aflýsa ferð til Milwaukee í síðustu viku.

Til að öðlast betri mynd af því sem á sér stað utan veggja Hvíta hússins hefur hann gripið til þess ráðs að horfa sjónvarpið, jafnt að nóttu sem degi og í raun of mikið í augum sumra aðstoðarmanna sinna.

Veitir hann oft biturlega gagnrýni jafnóðum, þeim sem birtast honum á öldum ljósvakans og gagnrýna hann þar, þar á meðal Don Lemon hjá fréttastofu CNN.

Trump hefur verið stöðugt mótmælt frá því hann tók við …
Trump hefur verið stöðugt mótmælt frá því hann tók við embætti forseta. AFP

Hömlur á vald Bannons

Þar til fyrir aðeins nokkrum dögum hafði Trump það á orði við vini sína og aðstoðarmenn að hann teldi að fyrstu skref valdatíðar sinnar hefðu gengið vel.

„Heyrðuð þið þetta, þessi gaur heldur að þetta hafi gengið hörmulega!“ sagði Trump í hæðnistón við aðstoðarmenn sína á fundi fyrir helgi, eftir að einn þeirra hafði sagst ósammála forsetanum um túlkun hans á atburðum síðustu vikna.

En skoðun hans á þessu er tekin að breytast eftir linnulausan straum slæmra fyrirsagna. Nú um helgina krafðist hann þess að framkvæmdastjóri Hvíta hússins, Reince Priebus, myndi innleiða mun hefðbundnari starfsreglur, sem talist höfðu sjálfsagðar í tíð fyrri forseta: Héðan í frá myndi forsetinn fá upplýsingar um þær tilskipanir sem eru í bígerð mun fyrr í ferli þeirra.

Þá munu hömlur verða settar á það nánast ótakmarkaða vald sem Bannon og stefnumálastjóri Hvíta hússins, Stephen Miller, hafa hingað til notið.

Hefur Priebus sagt þeim Trump og Bannon að stjórnin þurfi að endurhugsa stefnu sína og samskiptamál, eftir að í ljós kom að lykilatriðum tilskipana forsetans var haldið leyndum fyrir stofnunum, starfsfólki Hvíta hússins og leiðtogum repúblikana á þinginu, þar á meðal Paul Ryan, forseta fulltrúadeildarinnar.

Steve Bannon, til vinstri, ásamt Reince Priebus á gangi um …
Steve Bannon, til vinstri, ásamt Reince Priebus á gangi um Hvíta húsið. AFP

Hugfanginn af forsetaskrifstofunni

Þegar Trump tók við forsetaskrifstofunni skipaði hann fyrir að fjórir stólar yrðu settir niður í hálfhring andspænis skrifborði hans, sem nú er þakið minnisblöðum og dagblöðum eins og á skrifstofu hans í Trump-turninum í New York.

Stólarnir eru til marks um stjórnunarstíl Trumps, sem sjónvarpsþættirnir The Apprentice báru vitni um, en þeir minna einnig á að í Hvíta húsinu endast sætin alltaf lengur en sjálft fólkið sem þau halda uppi.

Þeir gestir forsetans sem komið hafa á skrifstofuna segja Trump heltekinn af herberginu og skreytingum þess. Það sé, umfram allt annað, minnisvarði um sigur hans og staðfesti að hann sé maður sem taka skuli alvarlega.

Um leið veiti skrifstofan grípandi baksvið og hefur hann því sagt starfsfólki sínu að skipuleggja eins margar sjónvarpsútsendingar frá herberginu og mögulegt er.

Trump tekur í höndina á Rex Tillerson, nýjum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, …
Trump tekur í höndina á Rex Tillerson, nýjum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á forsetaskrifstofunni. Í bakgrunni sjást gluggatjöldin. AFP

Dvelur við gylltu gluggatjöldin

Til að stytta sér stundir á milli funda hefur hann gefið gestum stutta leiðsögn um skrifstofuna. Bendir hann þá jafnan á ýmsar litlar breytingar sem hann lét gera, eftir að hafa í fyrstu haldið að hann þyrfti að borga fyrir þær sjálfur.

Hvort sínu megin við skrifborð forsetans hanga málverk af fyrirrennurum hans, þeim Thomas Jefferson og Andrew Jackson. Í leiðsögn sinni dvelur hann oft við gylltu gluggatjöldin sem hann lét hengja upp og sagði einum gesti nýverið að þau hefðu einnig prýtt skrifstofuna í tíð Franklins D. Roosevelt, þegar þau voru í raun gerð fyrir Bill Clinton á tíunda áratugnum.

Og fyrir mann sem hefur stundum átt í erfiðleikum með að einbeita sér að minnisblöðum um ýmis stefnumál ríkisstjórnarinnar, tók Trump sér góðan tíma í að fletta í gegnum bók sem bauð honum meðal annars upp á 17 valkosti til að skreyta gluggana.

Donald Trump er nú opinber starfsmaður í fyrsta sinn.
Donald Trump er nú opinber starfsmaður í fyrsta sinn. AFP

Aðeins haft einn yfirmann

Að lokum segir í umfjöllun dagblaðsins að þetta sé einmitt það Hvíta hús sem Trump langaði til að reisa. En á meðan heimurinn tekst á við þær afleiðingar sem forsetatíð hans hefur og mun hafa í för með sér, er hann enn að venjast þeim áhrifum sem embættið hefur á hann sjálfan.

Nú er Trump opinber starfsmaður. Og eini yfirmaðurinn sem hann hefur nokkurn tíma haft var faðir hans, harðfylginn verktaki sem forsetinn ber enn mikla virðingu fyrir.

Trump, með flestar eigur sínar og fjölskyldu í New York, er aðeins með eina fjölskyldumynd á hillunni aftan við skrifborð sitt. Svarthvíta mynd af föðurnum og yfirmanninum, Frederick C. Trump.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert