Francois Fillon, forsetaframbjóðandi franska Repúblikanaflokksins, baðst í dag afsökunar á þeim mistökum að ráða eiginkonu sína sem aðstoðarmann sinn á franska þinginu. Fillon neitaði því hins vegar alfarið að kona hans hefði fengið greitt fyrir óunnið starf.
„Ég bið íbúa Frakklands afsökunar,“ sagði Fillon á blaðamannafundi. Hann játaði að um „mistök“ hefði verið að ræða, sem hann iðraðist „innilega“.
Fylgið hrundi af Fillon eftir að í ljós kom að eiginkona hans, Penelope, fékk greiddar 800 þúsund evrur í laun á tímabilinu 1998 til 2007 sem aðstoðarmaður hans í franska þinginu.
Fillon sakaði fjölmiðla þá um að reyna að eyðileggja pólitískan feril sinn og að laun konu sinnar hefðu verið sanngjörn. Þá kvaðst hann ekki ætla að hætta við forsetaframboð sitt.
Hann hafnaði enn fremur alfarið ásökunum um að Penelope hefði ekki sinnt í raun þeim störfum sem hún fékk greitt fyrir. „Enginn hefur rétt á að dæma hvað felst í störfum aðstoðarmanns, nema þingmaðurinn sjálfur,“ sagði Fillon.
Fillon sagði konu sína hafa aðstoðað sig stanslaust við vinnu hans fyrir kjósendur og að meðaltekjur hennar, sem námu 3.700 evrum á mánuði eftir skatt, hefði verið sanngjörn þóknun fyrir konu sem hefði 15 ára reynslu af lögfræðistörfum.