Maður sem var handtekinn við Louvre-safnið í París á föstudag eftir að hafa ráðist á hermenn vopnaður sveðju hefur ekki sagt eitt einasta orð við lögreglu. Maðurinn er á sjúkrahúsi með skotáverka eftir hermenn sem gripu til varnar gegn honum þegar hann réðst á þá.
Lögreglan reyndi að yfirheyra manninn í tvígang á sjúkrahúsinu í gær án árangurs. Maðurinn, sem talið er að sé egypskur, var skotinn í magann en er á batavegi. Samkvæmt gögnum úr síma hans og kreditkortanotkun er talið að hann heiti Abdallah El-Hamahmy, 29 ára Egypti sem er búsettur í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hann kom með löglegum hætti til Frakklands frá Dubai 26. janúar.
Lögreglan telur að El-Hamahmy hafi leigt rándýra íbúð skammt frá Champs-Élysées breiðgötunni. Gistingin kostar 1.700 evrur á mánuði og bókuð í gegnum netið í júní, samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar.
Greint hefur verið frá því að árásarmaðurinn, sem var vopnaður tveimur sveðjum, hafi verið klæddur svörtum stuttermabol með hauskúpumynd. Hann stakk fjóra hermenn og kallaði Allahu Akbar á arabísku (Guð er mikill). Lítill vafi þykir á því að hann hafi ætlað að fremja hryðjuverk.
Beðið er niðurstöðu úr lífsýnarannsókn, en frönsk yfirvöld hafa verið í sambandi við yfirvöld í Egyptalandi vegna rannsóknarinnar. Eins í Sameinuðu furstadæmunum og Tyrklandi en í vegabréfi Hamahmy sést að hann hefur í tvígang fengið vegabréfsáritun til Tyrklands, árið 2015 og 2016.
El-Hamahmy ritaði á annan tug skilaboða á Twitter skömmu fyrir árásina, öll á arabísku. „Í nafni Allah... fyrir bræður okkar í Sýrlandi og hermenn alls staðar í heiminum,“ skrifar hann meðal annars. Nokkrum mínútum síðar vísar hann til vígasamtakanna Ríkis íslams í færslu á Twitter.
Fyrrverandi yfirmaður í lögreglunni í Kaíró, Reda El-Hamahmy, segist telja að maðurinn sé sonur hans, Abdallah, sem er í París í viðskiptaerindum. En hann segir að það bendi ekkert til þess að sonur hans hafi öfgavæðst. „Hann var á vegum fyrirtækisins og þegar því var lokið fór hann á söfn. Hann átti að yfirgefa landið á laugardag,“ segir El-Hamahmy og bætir við að sonur hann sé kvæntur og konan hans sé þunguð en þau séu búsett í Sameinuðu arabísku furstadæmunum ásamt sjö mánaða gömlum syni.
„Hann er bara venjulegur maður,“ segir hann. „Ég get sýnt ykkur myndir þar sem sést að hann er ekki með skegg,“ bætir El-Hamahmy við. En margir heittrúaðir múslímar láta sér vaxa skegg.
Marine Le Pen, frambjóðandi þjóðernisflokksins Front National, hóf kosningabaráttu sína fyrir forsetakosningar formlega í gær. Þar hét hún því að auka framlög til lögreglu- og varnarmála verulega. Hún segir að Frakkar eigi ekki að venjast því að búa við hryðjuverkaógn.
Louvre-safninu var lokað eftir árásartilraunina á föstudagsmorguninn og var safnið ekki opið fyrir almenning að nýju fyrr en í gær.