Aftökur í leynifangelsum

Amnesty Internatonal segir að opinberar aftökur séu enn við lýði …
Amnesty Internatonal segir að opinberar aftökur séu enn við lýði í Íran, Norður-Kóreu, Sádi-Arabíu og Sómalíu. Amnesty International

Allt að þrettán þúsund manns, flestir þeirra eru almennir borgarar sem styðja stjórnarandstöðuna, hafa verið teknir af lífi í leynifangelsum í Sýrlandi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu  Amnesty International.

Samkvæmt skýrslunni voru fjöldaaftökur í hverri viku í Saydnaya-fangelsinu frá því í september 2011 þangað til desember 2015. Aftökurnar fóru fram samkvæmt skipunum úr efstu lögum sýrlenskra stjórnvalda. Ríkisstjórn Sýrlands hefur ítrekað neitað því að fangar séu teknir af lífi og að þeir sæti slæmri meðferð í fangelsum landsins.

Fyrir ári kom fram hjá mannréttindasérfræðingum Sameinuðu þjóðanna að bæði vitni og skjöl sýni með nánast óyggjandi hætti að tugir þúsunda almennra borgara hafi verið fangelsaðir og að fjöldi þeirra hafi látist í haldi.

Starfsmenn Amnesty tóku viðtöl við 84, þar á meðal fyrrverandi fangaverði, fanga og yfirmenn fangelsanna, við gerð skýrslunnar. Þar kemur fram að í hverri viku og oft tvisvar í viku hafi hópar fólks, 20-50 manns, verið teknir af lífi með leynd í fangelsinu sem er skammt norður af Damaskus. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Áður en fangarnir voru teknir af lífi voru þeir leiddir fyrir „herdómstól á staðnum“ í Qaboun-hverfinu í höfuðborginni. Þar tóku réttarhöldin yfirleitt eina til þrjár mínútur, segir í skýrslunni.

Fyrrverandi dómari við herdómstólinn segir í viðtali við Amnesty að fangarnir hafi verið spurðir hvort þeir hafi framið glæpi sem áttu að hafa verið framdir. Engu skipti hvort svarið var já eða nei – viðkomandi var dæmdur. „Þessi dómstóll átti ekkert sameiginlegt með löggjöfinni,“ segir hann.

Daginn sem hengja átti fangana var þeim tjáð að flytja ætti þá í almennt fangelsi en þeir síðan færðir í klefa í kjallaranum þar sem þeir voru barðir til óbóta í tvær til þrjár klukkustundir.

Um miðja nótt var síðan bundið fyrir augu þeirra og þeir fluttir í annan hluta fangelsisins þar sem þeim var tjáð að þeir hefðu verið dæmdir til dauða, snörunni komið um háls þeirra og þeir hengdir.

Lík þeirra sem voru teknir af lífi voru síðan flutt á brott með vörubílum á Tishreen-hersjúkrahúsið í Damaskus þar sem þau voru skráð og hent í fjöldagrafir á umráðasvæði hersins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka