Karlmaður sem dyttaði að heimili sínu og garði klæðalaus var ekki að flagga nekt sinni, að sögn lögfræðings hans.
Dómstóll í Maidstone hlýddi í dag á málaferli gegn Robert Jenner, sem býr í þorpinu Eccles í Kent, sem sagður er hafa valdið streitu og vanlíðan hjá fólki sem leið illa við að verða vitni að nekt hans.
Fréttavefur BBC greinir frá því að Jenner sæti ákæru í 11 liðum fyrir uppátækið, sem hann neitar að sé brot á lögum.
Lögfræðingur hans Alex Davey, sagði nekt Jenner vera „fullkomlega eðlilega.“
„Það er ekki ólöglegt í sjálfu sér að vera nakinn á almannafæri. Nekt er fullkomlega lögleg og fellur undir tjáningarfrelsið,“ sagði Davey við dómara.
Þess vegna teldist hegðun Jenners hvorki glæpsamleg, né róstusöm, jafnvel þó að hún komi einhverjum í opna skjöldu eða valdi viðkomandi óþægindum.
Ákæruvaldið segir að um ítrekuð atvik yfir langan tíma sé að ræða og að þeir sem urðu vitni að nekt Jenners hafi upplifað hana áreiti, ótta og óþægindi.
„Börn ganga upp og niður þessa götu allan sólahringinn. Fólk vill ekki sjá þetta. Þetta er ekki í lagi,“ sagði eitt vitnanna Fred Black við dómarann.
Málaferlunum er ekki lokið.