Því var spáð að Lady Gaga myndi nota atriðið sitt á ofurskálinni til að breiða út pólitískan boðskap og gagnrýna Donald Trump. Eftir að hún hafði stokkið út af sviðinu á sunnudagskvöld sögðu margir fjölmiðlar að hana hafi hreinlega skort kjark til þess. En er það endilega raunin?
Í grein um atriðið í New York Times sagði t.d. að stærstur hluti atriðis Gaga hafi einfaldlega verið fjörugur popptónlistarflutningur. The Guardian sagði að Gaga hefði farið öruggu leiðina.
Ýmislegt er til í þessu, Gaga sagði fátt, bauð fólk velkomið og kastaði kveðju á foreldra sína. Spurði hvort allir væru í stuði. „Við erum hér til að láta ykkur líða vel,“ sagði hún er hún settist við píanóið og söng.
En þetta segir aðeins hálfa söguna. Textar Gaga eru auðvitað bullandi pólitískir. Hún syngur um að fólk megi vera eins og það helst kýs, að það hafi fæðst svona. Lagið Born This Way er dæmi um þennan boðskap sem samræmist vel baráttu hinsegin fólks og svartra. Er hún flutti það lag var hópur dansara á sviðinu af ýmsum uppruna.
Kærleikur og umburðarlyndi hefur þannig alltaf verið samofið allri tónlist Gaga og það eitt að hún syngi þessi lög sín af innlifun á stærsta sjónvarpsviðburði ársins er til þess fallið að bera út þann boðskap.
En það var fleira sem Lady Gaga gerði í atriði sínu sem má túlka sem innlegg í pólitíska umræðu, leynilegur boðskapur jafnvel.
Atriði Gaga, sem var stórkostleg sýning frá upphafi til enda, hófst á kröftugum söng hennar á
blöndu tveggja ættjarðar- og baráttusöngva; annars vegar God Bless America eftir Irving Berlin og hins vegar This Land is Our Land. Sá síðarnefndi hefur ítrekað verði sunginn af mótmælendum Trumps í fjölmennum göngum víðs vegar um Bandaríkin undanfarna mánuði, vikur og daga. Í umfjöllun Daily Telegraph um málið segir að enn meiri tengingu megi finna við Trump í söngnum því er höfundurinn, Woody Guthrie, samdi textann var hann að leigja húsnæði af fasteignafélagi föður Trumps, félaginu sem allt veldi Donalds Trump er í raun byggt á. Textinn fjallar um að Bandaríkin séu land allra þeirra sem þar búa. „Þetta land var búið til fyrir þig og mig,“ segir m.a. á einum stað. Á öðrum stað er sungið um hungur og svo spurt: „Er þetta land búið til fyrir þig og mig?“
Niðurstaða textans er þó sú að allir hafi jafnan rétt til frelsis, enginn geti stöðvað þann sem gengur frelsisveginn.
Textinn er enginn tilbúningur, hann er innblásinn af lífi Guthries. Hann var 27 ára er hann samdi textann eftir að hafa farið á puttanum frá Kaliforníu til New York þar sem hann reyndi að koma sér á framfæri sem söngvari. Þetta var árið 1939 og kreppan mikla var allsráðandi.
Í raun var This Land is Your Land andsvar Guthries, jafnvel háð, við ættjarðarsöng Berlins, God Bless America. Honum fannst texti Berlins sjálfumglaður og óraunsær.
Saga God Bless America er þó ekki síður merkileg. Irving Berlin var bandarískur gyðingur og innflytjandi frá Rússlandi. Hann samdi sönginn árið 1918 er hann sinnti herskyldu. Tuttugu árum síðar, er Adolf Hitler var kominn til valda og farinn að breiða út boðskap nasismans og fangelsa gyðinga, dró Berlin lagið upp úr fórum sínum og breytti textanum lítillega. Það var svo flutt í útvarpi í fyrsta sinn árið 1938 og varð strax mjög vinsælt. Samtök á borð við Ku Klux Klan fordæmdu lagið, ekki síst vegna þess að það var samið af innflytjanda af gyðingaættum.
Tenging söngvanna tveggja er mjög persónuleg. Vinir Guthries segja að hann hafi farið inn á kaffihús og heyrt lag Berlins spilað í glymskrattanum. Hann var orðinn þreyttur á laginu og hóf þá að endursemja textann og úr varð söngurinn This Land Is Your Land.
„Í fyrstu var þetta háðsádeila á lag Berlins, þetta var svona húmor á þessum tíma,“ segir dóttir hans, Nora. „En seinna sagði að hann það hefði fleira búið að baki, meiri alvara.“
Eftir síðari heimsstyrjöldina blossaði upp mikill húsnæðisvandi í New York. Til að bregðast við honum ákváðu yfirvöld að veita lán til að byggja fjölbýlishús í úthverfunum. Verktakar nýttu sér þetta tækifæri til að hagnast og einn þeirra var Fred Trump, faðir Donalds Trump. Á sjötta áratugnum flutti Guthrie inn í eina af þessum íbúðum Trumps. Húsin voru kölluð Beach Haven og voru í Brooklyn. Hann flutti út tveimur árum síðar er hann var orðinn sannfærður um það að Trump vildi ekki selja fasteignir sínar til annarra en hvítra.
Hann lýsti vanþóknun sinni á þessu í texta og ljóði, Bitch Havens:
Beach Haven looks like heaven
Where no black ones come to roam!
No, no, no! Old Man Trump!
Old Beach Haven ain’t my home!
Trump útilokaði svarta frá því að leigja íbúðirnar, þó að hann mætti það ekki. Úr varð dómsmál en Guthrie var látinn áður en það var tekið fyrir.
Með því að velja þessa söngva sem inngang að atriði sínu var Gaga mögulega að senda ákveðin skilaboð, og það hápólitísk. Í það minnsta hefur hún vakið athygli á söngvum Berlins og Guthrie, hvort sem hún vissi eður ei að sá síðarnefndi hataði föður Trumps eins og pestina.
Nokkrum dögum fyrir ofurskálina var mikið rætt hvort að Gaga myndi gagnrýna Trump og hans stefnu á sviðinu. Sjálf sagði hún af því tilefni:
„Eina yfirlýsingin sem ég mun gefa í atriði mínu í hálfleik er sú sem ég hef gefið stöðugt allan minn feril.“ Sagðist hún af ástríðu trúa á jafnan rétt allra til að taka þátt í samfélaginu. „Ég trúi á jafnrétti og að kraftur þessa lands felist í ást, samkennd og manngæsku. Svo framkoma mín mun vera í þessum anda.“