Auknar líkur á brotthvarfi Grikkja

Malloch telur að Grikkir ættu að taka drökmuna.
Malloch telur að Grikkir ættu að taka drökmuna. AFP

Grikk­land hefði átt að yf­ir­gefa evru­svæðið fyr­ir fjór­um árum, þegar það hefði verið „auðveld­ara og ein­fald­ara.“ Þetta seg­ir Ted Malloch, sem Don­ald Trump hef­ur til­nefnt sem sendi­full­trúa Banda­ríkj­anna við Evr­ópu­sam­bandið.

Malloch tel­ur litl­ar lík­ur á því að evru­sam­starfið lifi 18 mánuði í nú­ver­andi mynd. Þá seg­ir hann spurn­ing­una hvort það lif­ir yfir höfuð áleitna.

„Við höf­um séð úr­sögn Bret­lands, það eru kosn­ing­ar í öðrum Evr­ópu­lönd­um; þannig að ég tel að þetta sé eitt­hvað sem mun koma í ljós á næsta eina, eina og hálfa ári.“

„Af hverju er Grikk­land aft­ur á bjarg­brún­inni,“ spurði hann enn­frem­ur í gríska spjallþætt­in­um Istories. „Þetta virk­ar eins og deja vu, mun þetta ein­hvern tím­ann taka enda? Ég held að í þetta sinn verði ég að segja að það séu meiri lík­ur á að Grikk­land gangi úr evru­sam­starf­inu.“

Malloch er at­hafnamaður og var ein­arður stuðnings­maður Brex­it. Hann sagðist hjart­an­lega sam­mála um­mæl­um sem Trump lét falla í októ­ber 2012, þessi efn­is að Grikk­ir ættu ekki að hika við að taka aft­ur upp drök­muna.

Leiðtog­ar á Evr­ópuþing­inu hafa kallað eft­ir því að Evr­ópu­sam­bandið hafni vali Trump á Malloch en hann hef­ur sagt að ef til vill þurfi að „temja“ sam­bandið og vísað til þess í sömu andrá að hafa átt aðkomu að því að fella Sov­ét­rík­in.

Ítar­lega frétt um málið má finna hjá Guar­di­an.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka