Neil Gorsuch, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur útnefnt í sæti Antonin Scalia við hæstarétt, sagði í samtali við Richard Blumenthal, þingmann úr Demókrataflokknum, að tíst Trump um dómskerfið drægju úr mönnum máttinn.
Sagði Blumenthal Gorsuch hafa notað orðin demoralizing og disheartening um tístin en Trump hefur m.a. kallað alríkisdómara í Seattle „svokallaðan dómara“, eftir að hinn síðarnefndi felldi dóm gegn umdeildu ferðabanni forsetans.
CNN hefur greint frá því að Blumenthal hafi eggjað Gorsuch til að koma skoðunum sínum á framfæri við bandarísku þjóðina, svo hún skildi hversu andstyggilegar og óásættanlegar árásir Trump á dómskerfið væru.
Gorsuch hefur ekki haft sig mikið í frammi síðan hann hlaut útnefninguna en hann á fyrir höndum langt og strangt ferli áður en hann getur tekið dómarasætið og þá má gera ráð fyrir að demókratar muni gera hvað þeir geta til að erfiða Trump og repúblikönum ætlunarverkið.
Ron Bonjean, samskiptafulltrúi Gorsuch, hefur hins vegar staðfest orðanotkun dómarakandídatsins um tíst forsetans.