Trump segir Nordstrom beita Ivönku órétti

Ivanka og Donald Trump, Bandaríkjaforseti. Trump sagði Nordstrom beita dóttur …
Ivanka og Donald Trump, Bandaríkjaforseti. Trump sagði Nordstrom beita dóttur sína órétti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti nýtti samskiptamiðilinn Twitter í dag til að tjá vanþóknun sína líkt og oft áður. Að þessu sinni var það verslanakeðjan Nordstrom sem varð fyrir barðinu á forsetanum, „Dóttir mín Ivanka hefur verið beitt órétti af Nordstrom,“ sagði í Twitter-skilaboðum Trump. „Hún er frábær manneskja – þrýstir alltaf á mig að gera það sem er rétt. Þetta er ömurlegt!“

Trump sendi skilaboðin stuttu áður en hann flutti ræðu á fundi löggæslustofnana, þar sem hann varaði við hryðjuverkaógninni.

Stjórnendur Nordstrom greindu frá því í síðustu viku að vörur Ivönku Trump, dóttur forsetans, yrðu ekki lengur fáanlegar í hinum 350 stórverslunum Nordstrom í Bandaríkjunum og Kanada vegna slælegrar sölu. Vörulína forsetadótturinnar byggir á dýrum kvenfatnaði, skóm og fylgihlutum.

Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að ákvörðunin byggi eingöngu á viðskiptahagsmunum, sem hafi verið tekin við hefðbundið mat á þeim 2.000 vörumerkjum sem eru til sölu í verslununum. En gagn­rýn­end­ur Trump-fjöl­skyld­unn­ar og rík­is­stjórn­ar nýja for­set­ans hafa kallað eft­ir því að fólk sniðgangi all­ar vör­ur merkt­ar Trump merk­inu. 

Frá því að Trump sigraði í forsetakosningunum í nóvember hefur hann verið duglegur að nýta Twitter-reikning sinn til að skamma bandarísk fyrirtæki fyrir að úthýsa bandarískum störfum og fyrir að rukka stjórnvöld um of.

Þessi nýjustu skilaboð Trumps skera sig hins vegar nokkuð frá þeim fyrri, þar sem forsetinn reynir að þessu sinni að vernda viðskiptaveldi fjölskyldunnar, sem gagnrýnendur hans hafa áður sagt að geti átt eftir að valda honum hagsmunaárekstrum í forsetastarfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert