Nýtti Hvíta húsið til að auglýsa föt Ivönku

Kellyanne Conway, einn helsti ráðgjafi Donald Trumps Bandaríkjaforseta, nýtti í …
Kellyanne Conway, einn helsti ráðgjafi Donald Trumps Bandaríkjaforseta, nýtti í dag Hvíta húsið til að auglýsa vörulínu forsetadótturinnar. Sjálf sagðist hún eiga nokkrar flíkur frá Ivönku. AFP

„Kaupið fötin hennar Ivönku,“ sagði einn helsti ráðgjafi Donald Trumps Bandaríkjaforseta við bandaríska neytendur í dag. Trump gagnrýndi í gær stórverslanakeðjuna Nordstrom fyrir að hætta sölu á vörulínu dóttur sinnar.

 „Ég hata að fara í búðir,“ sagði Kellyanne Conway í viðtali við Fox-sjónvarpsstöðina, með merki Hvíta hússins vel sýnilegt í bakgrunninum. „En ég ætla að fara [og kaupa mér fötin hennar] í dag.“

„Þetta er frábær vörulína,“ bætti Conway við. „Ég á hluta hennar. Og ég ætla að vera með ókeypis auglýsingu hér. Farið og kaupið hana í dag. Þið finnið hana á netinu.“

Notkun Conway á Hvíta húsinu til að auglýsa vörulínu dóttur forsetans hefur vakið töluverða hneykslan í Washington, að sögn AFP-fréttastofunnar. Enda hafa gagnrýnendur Trump ítrekað bent á að erfitt verði fyrir hann að skilja á milli eigin viðskiptahagsmuna og þjóðarhagsmuna. Conway var líka að nýta sér fjölmiðilinn til að tjá reiði forsetans, sem nýtti sér Twitter-samskiptamiðilinn í sama tilgangi í gær. Tísti Trump þá að Nordstrom hefði komið illa fram við dóttur sína.

Eftir Twitter-skilaboð forsetans féllu bréf í Nordstrom um skamma stund, en tóku svo að stíga á ný og við lokun kauphallarinnar voru þau tæplega 7% hærri en tveimur sólarhringum áður.

Nordstrom segir ákvörðunina byggja ein­göngu á viðskipta­hags­mun­um og hafi hún verið tek­in við hefðbundið mat á þeim 2.000 vörumerkj­um sem eru til sölu í versl­un­un­um. En gagn­rýn­end­ur Trump-fjöl­skyld­unn­ar og rík­is­stjórn­ar nýja for­set­ans hafa kallað eft­ir því að fólk sniðgangi all­ar vör­ur merkt­ar Trump-merk­inu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert