„Kaupið fötin hennar Ivönku,“ sagði einn helsti ráðgjafi Donald Trumps Bandaríkjaforseta við bandaríska neytendur í dag. Trump gagnrýndi í gær stórverslanakeðjuna Nordstrom fyrir að hætta sölu á vörulínu dóttur sinnar.
„Ég hata að fara í búðir,“ sagði Kellyanne Conway í viðtali við Fox-sjónvarpsstöðina, með merki Hvíta hússins vel sýnilegt í bakgrunninum. „En ég ætla að fara [og kaupa mér fötin hennar] í dag.“
„Þetta er frábær vörulína,“ bætti Conway við. „Ég á hluta hennar. Og ég ætla að vera með ókeypis auglýsingu hér. Farið og kaupið hana í dag. Þið finnið hana á netinu.“
Notkun Conway á Hvíta húsinu til að auglýsa vörulínu dóttur forsetans hefur vakið töluverða hneykslan í Washington, að sögn AFP-fréttastofunnar. Enda hafa gagnrýnendur Trump ítrekað bent á að erfitt verði fyrir hann að skilja á milli eigin viðskiptahagsmuna og þjóðarhagsmuna. Conway var líka að nýta sér fjölmiðilinn til að tjá reiði forsetans, sem nýtti sér Twitter-samskiptamiðilinn í sama tilgangi í gær. Tísti Trump þá að Nordstrom hefði komið illa fram við dóttur sína.
Eftir Twitter-skilaboð forsetans féllu bréf í Nordstrom um skamma stund, en tóku svo að stíga á ný og við lokun kauphallarinnar voru þau tæplega 7% hærri en tveimur sólarhringum áður.
Nordstrom segir ákvörðunina byggja eingöngu á viðskiptahagsmunum og hafi hún verið tekin við hefðbundið mat á þeim 2.000 vörumerkjum sem eru til sölu í verslununum. En gagnrýnendur Trump-fjölskyldunnar og ríkisstjórnar nýja forsetans hafa kallað eftir því að fólk sniðgangi allar vörur merktar Trump-merkinu.