Bandarískur áfrýjunardómstóll hefur hafnað tilraun Bandaríkjaforseta Donalds Trump um að endurvekja bann við komu fólks frá sjö löndum til Bandaríkjanna.
Samkvæmt ferðabanninu gátu ríkisborgarar sjö landa ekki ferðast til Bandaríkjanna þó að þeir væru með gildar vegabréfsáritanir. Átti bannið að gilda í að minnsta kosti 90 daga fyrir almenna borgara en 120 daga fyrir flóttamenn.
Viku eftir að það var sett á komst alríkisdómari í Seattle að þeirri niðurstöðu að bannið bryti í bága við stjórnarskrá og setti lögbann á það, sem gildir um allt landið. Lögbannið er þó aðeins tímabundið eða þar til dómstólar hafa fjallað um kæru ríkissaksóknara Washington og Minnesota sem telja bannið beinast gegn múslimum og sé því ekki í samræmi við stjórnarskrá landsins.
Áfrýjunardómstóllinn í San Francisco, komst að þeirri niðurstöðu í gærkvöldi að ekki væri ástæða til þess að afnema ákvörðun alríkisdómarans og féllu atkvæða allra dómara, alls þriggja, á sama hátt – að þjóðaröryggi væri ekki stefnt í hættu.
Trump svaraði ákvörðun dómstólsins á Twitter og segir að þjóðaröryggi sé stefnt í hættu og að hann myndi fara áfram með málið á æðra dómstig. Það er hæstarétt Bandaríkjanna.
Ákvörðun dómstólsins í gær þýðir að fólk frá Íran, Írak, Líbýu, Sómalíu, Súdan, Sýrlandi og Jemen getur komið til Bandaríkjanna óáreitt sé það með vegabréfsáritun. Jafnframt geti flóttamenn, alls staðar að úr heiminum, komið til landsins.
Áfrýjunardómstóllinn telur að engar sönnur séu fyrir því að fólk frá þessum sjö tilteknu ríkjum hafi framið hryðjuverkaárás á bandarískri grund.