Donald Trump Bandaríkjaforseti fullyrti í dag að hann muni ná kostnaðinum við múrinn, sem hann hyggst reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, verulega niður. Bandarískir fjölmiðlar höfðu áður greint frá því að samkvæmt áætlunum stjórnvalda muni múrinn kosta 21,6 milljarða bandaríkjadala.
AFP-fréttastofan segir að samkvæmt útreikningum heimavarnaráðuneytisins muni taka meira en þrjú ár að reisa múrinn og kostnaðurinn við hann verður mun hærri en þeir 12-15 milljarðar dollara sem Paul Ryan, þingmaður repúblikana og forseti fulltrúardeildar þingsins, áætlaði að kostnaðurinn yrði.
„Ég er búinn að vera að lesa að landamæramúrinn mikli muni kosta mun meira en stjórnin upprunalega hélt, en ég er líka ekki byrjaður að skipta mér af hönnuninni eða samningaviðræðum enn þá,“ sagði Trump, sem líkt og oft áður kaus að tjá sig um málið á Twitter.
„Þegar ég geri það verður þetta eins og með forsetaþotuna, verðið mun LÆKKA VERULEGA.“
Stuttu eftir að hann var svarinn í embætti gaf Trump út forsetatilskipun um að 3.200 km langur múr skyldi reistur á landamærunum, en múrinn var eitt af helstu kosningaloforðum hans.
Múrinn hefur vakið mikla reiði hjá ráðamönnum í Mexíkó, ekki síst sú fullyrðing Trumps að Mexíkó verði gert að greiða fyrir múrinn. Samskipti ráðamanna í ríkjunum tveimur hafa líka verið með stirðara móti frá því að Trump tók við embætti og hætti Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, við heimsókn í Hvíta húsið í kjölfar yfirlýsinga Trump.