Varar Trump við afskiptum af Evrópu

Federica Mogherini fundar með Rex Tillerson, nýjum utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Federica Mogherini fundar með Rex Tillerson, nýjum utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Federica Mogherini, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hefur varað stjórnvöld vestanhafs við því að skipta sér af evrópskum stjórnmálum og ráðlagt þeim að hugsa um „Bandaríkin fyrst“, líkt og Donald Trump hefur heitið að gera.

Mogherini lét ummælin falla í tveggja daga heimsókn. Hún nefndi ekki dæmi um afskipti Bandaríkjanna en sagðist stundum heyra raddir í nýju ríkisstjórninni segja að Evrópusambandið væri „ekki endilega góð hugmynd“.

„Að bjóða okkur að rífa það niður sem okkur hefur tekist að byggja upp og sem hefur fært okkur ekki bara frið heldur efnahaslegan styrk,“ sagði hún.

„Það er ekki mitt eða annars Evrópubúa að tjá sig um pólitískt val eða ákvarðanir innanlands í Bandaríkjunum. Það sama á við um Evrópu; engin afskipti,“ sagði Mogherini. „Kannski þýðir Bandaríkin fyrst að þú þarft að fást við Bandaríkin fyrst.“

Mogherini er ekki eini embættismaðurinn í Brussel sem hefur varað við ágangi nýrra stjórnvalda vestanhafs en Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, segir þau og yfirlýsingar þeirra einu helstu ógnina sem steðjar að sambandinu.

Trump hefur verið iðinn við að gera lítið úr Evrópusamstarfinu og m.a. lofað úrsögn Bretlands. Þá dró hann upp þá mynd áður en hann tók embætti að Þjóðverjar sætu einir við völd í Evrópu og að Evrópusambandið væri við það að falla sundur.

Ted Malloch, sem Trump hefur í huga að tilnefna sem sendifulltrúa við Evrópusambandið, segir forsetann telja vænlegra að eiga bein samskipti við einstök ríki frekar en Evrópusambandið. Þá hefur Malloch sakað Evrópubúa um að vera á móti Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka