Með nýja tilskipun í skoðun

Stephen Miller, ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Stephen Miller, ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta. AFP

Banda­rísk stjórn­völd staðfestu í dag að til skoðunar sé að gefa út nýja til­skip­un um að banna tíma­bundið íbú­um sjö ríkja þar sem múslim­ar eru í meiri­hluta íbúa að koma til Banda­ríkj­anna. Fyrri til­skip­un Don­alds Trump Banda­ríkja­for­seta var stöðvuð af banda­rísk­um dóm­stól­um en málið er hins veg­ar enn til meðferðar í rétt­ar­kerfi lands­ins.

Haft er eft­ir Stephen Miller, ráðgjafa Trumps, í frétt AFP að stjórn­völd séu að skoða alla mögu­leika í stöðunni. Næsta skrefið væri annaðhvort að óska eft­ir því að Hæstirétt­ur Banda­ríkj­anna veitti áfrýj­un máls­ins flýtimeðferð eða að gefa út nýja til­skip­un. Ekki færi á milli mála að Trump hefði vald til þess að gefa slíka til­skip­un út.

„Við erum með í skoðun frek­ari aðgerðir til þess að tryggja að inn­flutn­ing­ur fólks til lands­ins sé ekki notaður til þess að taka við fólki sem er fjand­sam­legt í garð Banda­ríkja­manna og gilda þeirra,“ seg­ir Miller. Ekki ætti að taka við öðrum en þeim sem bæru ást í brjósti til Banda­ríkja­manna og stjórn­ar­skrár Banda­ríkj­anna.

„Skila­boðin sem ég vil að heim­ur­inn heyri í dag eru þau að Banda­rík­in munu verja landa­mæri sín. Þau munu verja borg­ara sína,“ sagði hann enn frem­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert