Bandarísk stjórnvöld staðfestu í dag að til skoðunar sé að gefa út nýja tilskipun um að banna tímabundið íbúum sjö ríkja þar sem múslimar eru í meirihluta íbúa að koma til Bandaríkjanna. Fyrri tilskipun Donalds Trump Bandaríkjaforseta var stöðvuð af bandarískum dómstólum en málið er hins vegar enn til meðferðar í réttarkerfi landsins.
Haft er eftir Stephen Miller, ráðgjafa Trumps, í frétt AFP að stjórnvöld séu að skoða alla möguleika í stöðunni. Næsta skrefið væri annaðhvort að óska eftir því að Hæstiréttur Bandaríkjanna veitti áfrýjun málsins flýtimeðferð eða að gefa út nýja tilskipun. Ekki færi á milli mála að Trump hefði vald til þess að gefa slíka tilskipun út.
„Við erum með í skoðun frekari aðgerðir til þess að tryggja að innflutningur fólks til landsins sé ekki notaður til þess að taka við fólki sem er fjandsamlegt í garð Bandaríkjamanna og gilda þeirra,“ segir Miller. Ekki ætti að taka við öðrum en þeim sem bæru ást í brjósti til Bandaríkjamanna og stjórnarskrár Bandaríkjanna.
„Skilaboðin sem ég vil að heimurinn heyri í dag eru þau að Bandaríkin munu verja landamæri sín. Þau munu verja borgara sína,“ sagði hann enn fremur.