Samþykktu tillögu um ríkisfang

Wikipedia

Svissneskir kjósendur samþykktu í dag í þjóðaratkvæðagreiðslu að auðvelda innflytjendum í Sviss af þriðju kynslóð að öðlast ríkisborgararétt. Niðurstaðan þykir áfall fyrir Svissneska þjóðarflokkinn og aðra sem börðust gegn því að tillagan yrði samþykkt. Kosningabarátta þeirra byggðist á því að ala á ótta við að fleiri múslimar fengju svissneskt ríkisfang.

Fram kemur í frétt AFP að 60% svissneskra kjósenda hefðu samþykkt tillöguna og meirihluti hafi verið fyrir því í 19 af 26 kantónum Sviss. Ríkisstjórn landsins og meirihluti þingmanna þess og stjórnmálaflokka studdu samþykkt tillögunnar. Samkvæmt henni geta barnabörn innflytjenda til Sviss fengið flýtimeðferð þegar kemur að veitingu ríkisfangs.

Haft er eftir Jean-Luc Addor, þingmanni Svissneska þjóðarflokksins, að flokkurinn hafi verið einn á móti öllum í málinu. Svissneski þjóðarflokkurinn er stærsti flokkurinn á þingi Sviss. Samkvæmt opinberum tölum eru innan við 25 þúsund manns í landinu sem uppfylla skilyrði þess að teljast innflytjendur af þriðju kynslóð en íbúar þess eru um átta milljónir. Flestir þeirra eru Ítalir eða 60%. Þar á eftir kemur fólk frá Balkanskaganum og Tyrklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert