Flynn lætur af störfum

Michael Flynn.
Michael Flynn. AFP

Michael Flynn, ráðgjafi Donalds Trump í þjóðaröryggismálum, hefur sagt upp störfum vegna samskipta sinna við Rússa. Forsetaembættið tilkynnti um afsögnina í nótt.

Flynn á að hafa rætt viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna gagnvart Rússum við sendiherra Rússlands áður en Trump sór embættiseið. Hann er einnig sagður hafa ekki greint satt og rétt frá samræðnum við sendiherrann.

Áður höfðu bandarískir fjölmiðlar greint frá því að dómsmálaráðuneytið hafi varað forsetaembættið við samskiptum þeirra í síðasta mánuði. Taldi ráðuneytið að það gæti orðið auðvelt fyrir Rússa að múta Flynn. Háttsettir demókratar höfðu krafist afsagnar Flynn, segir í frétt BBC.

Almennir borgarar mega ekki samkvæmt bandarískum lögum hafa afskipti af utanríkismálum og símtalið sem um ræðir átti sér stað áður en Flynn var tilnefndur í starf sitt.

Í uppsagnarbréfinu greinir Flynn frá því að hann hafi upplýst varaforseta Bandaríkjanna og aðra um símtalið við rússneska sendiherrann. 

Í tilkynningu frá Hvíta húsinu kemur fram að Joseph Keith Kellogg hershöfðingi hafi verið settur í embætti þjóðaröryggisráðgjafa tímabundið.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka