Hálfbróðir Kims Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu, hefur verið myrtur í Malasíu, að sögn suður-kóreskra fjölmiðla. Ein sjónvarpsstöð segir að ráðist hafi verið á Kim Jong-Nam á flugvelli í Malasíu með eitruðum nálum.
Yfirvöld í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu hafa ekki staðfest andlát hans.
Að sögn lögreglunnar í Malasíu veiktist ónafngreindur Kóreubúi á alþjóðaflugvellinum í Kuala Lumpur og lést á leiðinni á sjúkrahús.
Kim Jong-Nam, sem var 45 ára, er sagður hafa verið stunginn með eitruðum nálum af tveimur konum.
Talið er að þær séu norður-kóreskir njósnarar, að sögn Telegraph.
Konurnar eru sagðar hafa kallað á leigubíl fyrir utan flugstöðina og flúið þannig af vettvangi.
Kim Jong-Nam er elsti sonur Kims Jong-Il. Hann var talinn líklegur sem arftaki hans en féll í ónáð hjá föður sínum eftir að hafa reynt að komast til Japans árið 2001 á fölsuðum skilríkjum. Hann hafði ætlað sér að heimsækja Disneyland.
Síðan þá hefur hann verið meira og minna í útlegð, aðallega í Kína.
Kim Jong-Un, hálfbróðir, Jong-Nam, tók við sem leiðtogi Norður-Kóreu árið 2011 eftir að faðir þeirra lést.
Jong-Nam sagðist eitt sinn í viðtali við japanskt dagblað vera mótfallinn því hversu lengi völdin í landinu hafa verið innan sömu fjölskyldunnar.
Malaysian police investigate "sudden death" of Kim Jong Un's half-brother after he fell ill at Kuala Lumpur airport https://t.co/GlUcHrQ0kt pic.twitter.com/LPki0dp74f
— CNN (@CNN) February 14, 2017