Hernaðarframleiðsla Kínverja nálgast hraðfluga tæknistig vesturlanda og útgjöld Kínverja til hernaðar- og varnarmála nema samtals um þriðjungi af heildarútgjöldum Asíuríkja til málaflokksins. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu stofnunarinnar International institute for strategic studies (IISS), sem birt var í dag.
Útgjöld Kína til málaflokksins voru á síðasta ári 145 milljarðar dala. Er það um 1,8 sinnum hærri upphæð heldur en nágrannaríkin Suður-Kórea og Japan verja í hernaðar- og varnarmál samtals.
Í heild jukust hernaðarútgjöld í Asíu á árunum 2012-2016 um 5-6% samkvæmt skýrslunni. Heildarútgjöld á heimsvísu drógust þó saman um 0,4% og skýrist það aðallega af minni útgjöldum í Miðausturlöndum.
Formaður IISS sagði við kynningu skýrslunnar að framþróun Kína á sviði hernaðarframleiðslu þýddi að vesturlönd gætu ekki lengur tekið yfirburðarstöðu sinni á þessum vettvangi sem sjálfsögðum. Þá sagði hann Kína einnig horfa til þess að selja fleiri vopn erlendis og að Kína væri að þróa eldflaug sem yrði sú langdrægasta í heimi.
Bent er á að á síðustu árum hafi þróunin verið sú að vopnaútflutningur Kína til ríkja Afríku væri í auknum mæli háþróuð kínversk vopn í stað gamalla vopna frá Sovéttímanum. Þannig hafi vopnaðir drónar frá Kína meðal annars verið seldir til Sádí-Arabíu og Nígeríu.