Hálfbróðir Kims Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu, var myrtur af tveimur konum á flugvellinum í Kuala Lumpur í Malasíu. Konurnar eru sagðar útsendarar stjórnar Norður-Kóreu.
Leyniþjónusta Suður-Kóreu segir að eitrað hafi verið fyrir hálfbróðurnum, Kim Jong-Nam, á flugvellinum á mánudag, að því er fram kemur í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar. Í frétt BBC segir að ekki sé búið að bera kennsl á morðingjana en stjórn Suður-Kóreu sé þess fullviss að hann hafi verið myrtur.
Kim Jong-Nam var á leið frá Malasíu til Macau, sjálfstjórnarsvæðis í Kína. Hann hafði búið í Macau undir vernd kínverskra stjórnvalda í um hríð.
Konurnar notuðu eitraðar nálar til að drepa hann og flúðu strax að því loknu af vettvangi í leigubíl, að því er suðurkóreska útvarpsstöðin Chosun hefur eftir heimildarmönnum innan ríkisstjórnarinnar. Malasísk yfirvöld segja hins vegar að hann hafi verið úðaður með einhverjum vökva í flugstöðinni. Í kjölfarið hafi hann fundið fyrir sársauka og leitað aðstoðar.
Hwang Kyo-ahn, forsætisráðherra Suður-Kóreu, segir að ef staðfest verði að Kim Jong-Nam hafi verið drepinn af ríkisstjórn Norður-Kóreu sýni það mannvonsku og grimmd stjórnar Kims Jong-Un.
Kim Jong-Nam var sonur suðurkóresku leikkonunnar Song Hye-Rim sem sögð er hafa verið hjákona Kims Jong-Il, föður Kims Jong-Un. Hann var ötull talsmaður umbóta í Norður-Kóreu og tjáði sig opinskátt um skoðanir sínar á ríkisstjórn landsins. Hann var elsti sonur Kims Jong-Il en féll í ónáð föður síns árið 2001 er hann reyndi að komast til Japans á fölsuðum skilríkjum. Sagðist hann hafa viljað koma þangað til að heimsækja Disneyland.
Hann var 45 ára.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa ekki tjáð sig um dauða Kims-Jong-Nam. Hins vegar segir í frétt BBC að starfsmenn sendiráðs Norður-Kóreu í Malasíu hafi þegar farið á sjúkrahúsið þar sem lík hans er að finna.