Rússar hyggjast halda Krímskaga

Vladimir Pútín hyggst ekki skila Krím-skaga, þvert á væntingar Bandaríkjaforseta.
Vladimir Pútín hyggst ekki skila Krím-skaga, þvert á væntingar Bandaríkjaforseta. AFP

Utanríkisráðherra Rússlands hefur sagt að Rússar hyggist halda Krímskaga en ekki skila honum aftur til Úkraínu. Maria Zakharova, talsmaður ráðuneytisins, sagði á vikulegum blaðamannafundi í dag að Krím væri hluti af Rússlandi.

Ummæli talsmannsins koma á hæla þess að Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sagði í gær að Donald Trump Bandaríkjaforseti gerði ráð fyrir að stjórnvöld í Moskvu afturkölluðu herafla sinn frá svæðinu, sem þau hefðu hernumið í kjölfar innrásar árið 2014.

Þá gerði hann ráð fyrir að þau „skiluðu“ Krím.

Gert er ráð fyrir að Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, muni funda á hliðarlínum G20-fundarins sem hefst á morgun.

Trump virðist hafa breytt nokkuð um afstöðu frá því í kosningabaráttunni en í júlí síðastliðnum sagði hann að átökin í Úkraínu væru „meira evrópskt vandamál“ og að Bandaríkin ættu bara að láta til sín taka varðandi Krím ef önnur Evrópuríki bæðu um aðstoð.

Þá sagði hann að Vladimir Pútín Rússlandsforseti myndi ekki grípa til hernaðaraðgerða í Úkraínu, jafnvel þótt Rússar hefðu þá þegar innlimað Krímskaga.

Tilburðir Rússa á svæðinu hafa vakið áhyggjur annarra nágrannaríkja af fyrirætlunum stjórnvalda í Moskvu.

CNN sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert