Trump heitir því að negla „skítseiðin“

Trump á sameiginlegum blaðamannafundi hans og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael.
Trump á sameiginlegum blaðamannafundi hans og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur heitið því að ná þeim sem bera ábyrgð á upplýsingalekum sem urðu til þess að þjóðaröryggisráðgjafi hans neyddist til að láta af störfum vegna samskipta sinna við sendiherra Rússlands í Washington.

„Kastljósinu hefur loksins verið beint að skítseiðis-lekurunum! Þeir munu nást!“ tísti Trump í morgun. Hann hefur ítrekað gefið í skyn á Twitter að lekarnir séu til þess gerðir að grafa undan honum og ríkisstjórninni.

Forsetinn fordæmdi í gær meðferðina á þjóðaröryggisráðgjafanum Mike Flynn, jafnvel þótt það hefði verið hann sjálfur sem gerði Flynn að segja af sér. Að sögn talsmanna Hvíta hússins var Flynn ekki látinn fara fyrir að hafa átt samtöl við sendiherrann Sergey Kislyak, heldur fyrir að hafa logið að varaforsetanum Mike Pence um efni samtalanna.

Trump hefur farið mikinn varðandi lekana og m.a. bent á Þjóðaröryggisstofnunina og Alríkislögregluna sem mögulega uppruna. Þá hefur hann látið að því liggja að öryggisstofnarnar séu að reyna að grafa undan sér.

„Þetta eru glæpsamlegar aðgerðir, glæpsamlegur gjörningur, og hefur verið í gangi í langan tíma; áður en ég kom til,“ sagði Trump á blaðamannafundi í Hvíta húsinu ásamt Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael.

Hvíta húsið hefur staðfest að Flynn ræddi við sendiherrann rússneska um refsiaðgerðir Bandaríkjamanna gegn Rússum sama dag og Barack Obama, þáverandi forseti, tilkynnti um brottvísun 35 rússneskra diplómata.

Wall Street Journal sagði frá því í gær að starfsmenn öryggisstofnananna hefðu viðhaldið viðkvæmum upplýsingum frá forsetanum af ótta við að þeim yrði lekið eða þær birtar. Embættismaður innan Hvíta hússins hefur hafnað þessum staðhæfingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert