Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafnar ásökunum um að starfsmenn í framboðshópi hans hafi átt í ítrekuðum samskiptum við rússneska embættismenn. Kallar hann þær „falsfréttir“.
„Þau vissu ekkert um þetta. Þau voru ekki í Rússlandi. Þau hringdu aldrei til Rússlands. Þau fengu aldrei símtal. Þetta eru allt falsfréttir,“ sagði Trump á blaðamannafundi nú fyrir stundu.
Trumo varði þá einnig Michael Flynn, þjóðaröryggisráðgjafann sem sagði af sér eftir að Trump krafðist þess. Sagði hann Flynn ekki hafa gert neitt rangt þegar hann talaði við rússneska sendiherrann fyrir embættistöku forsetans.
„Hann var bara að sinna starfinu sínu.“
Þá sagðist hann hafa beðið dómsmálaráðuneytið um að rannsaka þá upplýsingaleka sem leiddu til afsagnar Flynn.
Sagði hann lekana glæpsamlega og að þeir væru litnir alvarlegum augum.