Donald Trump heldur áfram að ráðast gegn fjölmiðlum, en í nýjasta tísti sínu lýsir hann bandarískum fjölmiðlum sem „óvinum bandarísks almennings“.
Skömmu eftir að hann lenti við frístundaheimili sitt í Mar-a-Lago í Flórída, þar sem hann gistir nú þriðju helgina í röð, sendi hann frá sér tístið.
The FAKE NEWS media (failing @nytimes, @NBCNews, @ABC, @CBS, @CNN) is not my enemy, it is the enemy of the American People!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) February 17, 2017
Skömmu áður hafði hann látið frá sér tíst sem beindist að New York Times, CNN, NBC, „og fjölmörgum fleiri“ fjölmiðlum - og endaði færsluna á „SICK!“, eða „sjúkt!“ á íslensku.
En hann var fljótur til að eyða þeim skilaboðum, áður en hann lét frá sér þetta næsta. Höfðu þá tveir fjölmiðlar, eða „óvinir“, bæst við listann.
Margir forsetar Bandaríkjanna hafa gagnrýnt fjölmiðla, en orðræða Trumps hefur þótt sífellt meira í takt við þá einræðisherra sem heimurinn hefur verið vitni að.
Á blaðamannafundi í gær ávítti hann fjölmiðla og sagði þá bera ábyrgð á vandræðum sinnar mánaðargömlu ríkisstjórnar.
Á því tímabili hefur þjóðaröryggisráðgjafi hans neyðst til að segja af sér, ráðherraefni hans dregið tilnefningu sína til baka og ferðabann hans fallið dautt niður frammi fyrir dómstólum.