Beðið á milli vonar og ótta

Félagar í Hvítu hjálmunum að störfum.
Félagar í Hvítu hjálmunum að störfum. AFP

Félagar í í sýrlensku björg­un­ar­sveit­inni Hvítu hjálm­unum eru að fara til Bandaríkjanna þar sem þeir ætla að vera viðstaddir Óskarsverðlaunahátíðina. Óvíst var hvort þeir fengju að koma til landsins vegna banns sem Donald Trump Bandaríkjaforseti lét setja á komu fólks frá sjö ríkjum heimsins, þar á meðal Sýrlandi.

AFP

Heimildarmynd um störf sveitarinnar er tilnefnd til Óskarsverðlaunanna í ár. Hvítu hjálm­arn­ir hafa und­an­far­in ár unnið við hjálp­ar­starf í Aleppo og víðar í Sýrlandi. Hvítu hjálm­arn­ir voru í fyrra til­nefnd­ir til friðar­verðlauna Nó­bels fyr­ir störf sín í þágu al­menn­ings. 

Undanfarnar vikur hafa félagar í björgunarsveitinni og fólk sem vann við kvikmyndina unnið að því hörðum höndum að reyna að útvega vegabréfsáritun fyrir þá til Bandaríkjanna. Raed Saleh, leiðtogi Hvítu hjálmanna, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að þeir hafi fengið vegabréfsáritun í gær en enn sé óvíst hvort þeim verði hleypt inn í Bandaríkin. Hann segir að þeir muni ekki leggja af stað í ferðalagið nema það sé tryggt því þeir vilji ekki lenda í vandræðum á landamærunum. 

Björgunarsveitin þekkist á hvítu hjálmunum.
Björgunarsveitin þekkist á hvítu hjálmunum. AFP

Heimildarmyndin The White Helmets er í leikstjórn Orlando von Einsiedel en björgunarsveitin hefur starfað frá árinu 2013 og að eigin sögn bjargað yfir 78 þúsund mannslífum. Yfir þrjú þúsund sjálfboðaliðar hafa starfað með samtökunum. Sveitin dregur nafn sitt af hvítum hjálmum sem þeir bera við björgunarstörf.

Óskarsverðlaunahátíðin verður haldin 26. febrúar í Los Angeles. Saleh segir að þar sem svo margir fylgist með hátíðinni þá er það mikilvægt tækifæri að koma þangað og ræða þjáningar þeirra sem eru í Sýrlandi. Yfir helmingur landsmanna hefur flúið heimili sín síðan stríðið braust út fyrir tæpum sex árum og yfir 310 þúsund manns hið minnsta hafa látist.

Heimildarmyndin Whiteh Helmets er tilnefnd til Óskarsverðlauna.
Heimildarmyndin Whiteh Helmets er tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Að sögn Saleh var lögð mikil vinna í að gera heimildarmyndina en margir þeirra sem þar koma fram eru dánir. „Þessi mynd er sagan okkar. Við vonumst til þess að hljóta Óskarsverðlaun því það myndi veita okkur móralskan stuðning og sýna að þær fórnir sem liðsmenn hvítu hjálmanna hafa fært eru ekki til einskis.“

Að sögn framleiðanda myndarinnar, Joanna Natasegara, kemur, auk Saleh, Khaled Khatib, sem einnig er liðsmaður í Hvítu hjálmunum og tók mikið af myndefninu.  

AFP

Natasegara segir að undanfarnar vikur hafi verið eins og rússíbanareið. Fyrst hamingjan yfir tilnefningunni og að geta boðið þeim að koma á hátíðina en tveimur dögum síðar hafi tilskipunin komið ofan frá. Hún segir að þau sem komu að gerð myndarinnar muni ekki anda rólega fyrr en Saleh og Khatib eru á bandarískri grundu. „Við sem kvikmyndagerðarmenn vildum færa þeim þennan vettvang. Þetta er þeirra dagur. Þeirra skilaboð eru von og friður. Við erum einfaldlega yfir okkur spennt að deila þessum degi með þeim,“ segir hún.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka