Flúði fótgangandi með börnin

Emmanuel litli er aðeins nokkurra mánaða gamall. Hann er alvarlega …
Emmanuel litli er aðeins nokkurra mánaða gamall. Hann er alvarlega vannærður en er kominn á heilsugæslu í Juba þar sem hann fær meðferð. Ljósmynd/UNICEF

Klukkan var um tíu að morgni í júlí er Helen fór að sjá og heyra hvininn í byssukúlunum nálægt sér. Hún var þá úti við að þvo þvott í þorpi utan við höfuðborg Suður-Súdans, Juba.

Hún beygði sig niður í skyndi og hljóp inn í húsið sitt. Þar greip hún börnin sín tvö og flúði með þau úr þorpinu eins fljótt og hún mögulega gat ásamt öðrum þorpsbúum.

Átök höfðu brotist út og öllum virtist standa á sama um hverjir lentu í skothríðinni.

Helen var fótgangandi á flótta í fjóra daga. Hún bar eldra barnið sitt á bakinu og það yngra í fanginu. Hún var peningalaus og í raun allslaus. Hún hafði ekkert annað val en að ganga.

Að lokum komust þau til nágrannalandsins Úganda. Þau dvöldu í flóttamannabúðum og þó að öryggið væri kærkomið var hungrið enn mikið. Börnin hennar voru sterk og kraftmikil er þau komu í búðirnar en þar sem matur var þar af skornum skammti urðu þau sífellt veikbyggðari, aðallega sonur hennar, Emmanuel. Hann var aðeins nokkurra mánaða gamall og hún sá hann smám saman veslast upp í örmum sér.

Stríðið skárra en hungrið

Helen vissi að hún gæti ekki dvalið áfram í búðunum og hún ákvað að fara aftur til þorpsins síns í nágrenni Juba. Hún leit svo á að það væri skárra að búa við hættuna á stríði en að svelta í hel.

Þegar hún kom í þorpið var það yfirgefið. Eiginmaður hennar var ekki þar en þau höfðu orðið viðskila er átökin brutust út í júlí. Hún reyndi að hringja í hann en símanúmerið hans var ekki lengur tengt. Ljóst var að lífsbarátta Helen var enn að þyngjast. Hún átti ekki foreldra á lífi og hún hafði ekkert að borða í þorpinu. Emmanuel hrakaði mikið. Morgun einn í janúar missti hann meðvitund. Hún grátbað fólk um hjálp og loks tókst henni að fá lánaða peninga hjá bróður sínum til að fara með barnið á sjúkrahús í Juba.

Helen ásamt Emmanuel litla á heilsugæslu í Juba. Barnið hennar …
Helen ásamt Emmanuel litla á heilsugæslu í Juba. Barnið hennar er alvarlega vannært. Ljósmynd/UNICEF

Helen var oft hrædd um að drengurinn hennar myndi deyja. Hann var alvarlega vannærður, oft með niðurgang eða að kasta upp. Nú dvelur hún með hann á heilsugæslunni í Juba þar sem hann er í góðum höndum og á batavegi.

Óvissan mikil

Hún segir að hjúkrunarfræðingarnir hafi stappað í sig stálinu og aukið sér bjartsýni. „Ef það væri ekkert stríð væri fjölskyldan mín saman og við myndum hafa vinnu og mat fyrir okkur öll,“ segir hún í samtali við starfsmann UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. „En ekkert virkar eins og það á að gera núna og ég hef engin tækifæri.“

Helen veit ekki hvað framtíðin mun bera í skauti sér. Lífsbaráttan er enn hörð og ekki ljóst hvort Emmanuel nær sér að fullu.

Hungursneyð hefur verið lýst yfir í yngsta ríki heims, Suður-Súdan. Einn þriðji suðursúdönsku þjóðarinnar þarf á mataraðstoð að halda. Talið er að um 1,1 milljón barna verði alvarlega vannærð á þessu ári. 11.539 höfðu fengið meðferð við vannæringu í janúar.

Flýja grimmd og leita von­ar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert