22 hælisleitendur flúðu frá Bandaríkjunum til Kanada nú um helgina. Fór fólkið yfir landamærin frá Bandaríkjunum til Manitoba í Kanada þar sem það óskaði eftir hæli, að því er AFP-fréttastofan hefur eftir kanadískum yfirvöldum.
Fólkið er flest frá Afríkuríkjum að sögn Greg Janzen, hjá borgaryfirvöldum í Emerson borg. Hann segir 22 tvo hafa komið yfir landamærin aðfaranótt sunnudags, en átta höfðu áður farið þar yfir á föstudag.
Emerson er um 120 km suður af Winnipeg og liggur nálægt landamærum ríkjanna Norður-Dakóta og Minnesota. Nokkuð hefur verið um að hælisleitendur hafi komið yfir landamærin á þessum stað, þar sem lítið er um landamæraeftirlit, allt frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti bannaði íbúum sjö múslimaríkja að koma til Bandaríkjanna.
Tvíhliða samningar Bandaríkjanna og Kanada kveða á um að hælisleitendum frá Bandaríkjunum sé venjulega snúið við á landamærastöðvum ríkjanna, þetta á hins vegar ekki við um þá sem fara ólöglega yfir landamærin á öðrum stöðum.
Segja yfirvöld í Manitoba að 99 hælisleitendur hafi komið ólöglega yfir landamærin frá upphafi þessa árs.
Mikill kuldi fyrr í mánuðinum gerði þeim hælisleitendum sem þá reyndu að komast yfir landamærin erfitt fyrir, en tveir þeirra misstu m.a. nokkra fingur af völdum kals.
Mun mildara veður var hins vegar um síðustu helgi.