Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, segist vera undrandi á ummælum Donalds Trump Bandaríkjaforseta þar sem hann tengdi komu flóttamanna við meint ofbeldismál í Svíþjóð.
„Eins og margir aðrir var ég undrandi á ummælum hans um Svíþjóð um helgina,“ sagði Löfven á blaðamannafundi með kanadíska ríkisstjóranum David Johnston.
„Við höfum tækifæri, við glímum við áskoranir. Við erum að vinna úr þeim á hverjum degi. Ég tel líka að við þurfum að sýna ábyrgð við að greina rétt frá staðreyndum og við þurfum að staðreyna upplýsingarnar sem við dreifum,“ sagði Löfven.
Sænsk stjórnvöld vissu ekki til hvaða ofbeldismáls Trump var að vísa og báðu bandarísk stjórnvöld um útskýringu á orðum forsetans. Greint var frá því að forsetinn hafi hugsanlega verið að vísa til fréttaþáttar sem sýndur var á Fox á föstudagskvöldið og fjallaði um flóttamenn og glæpatíðni í Svíþjóð.