H.R. McMaster, hershöfðinginn sem Donald Trump hefur tilnefnt sem þjóðaröryggisráðgjafa, er einna þekktastur fyrir gagnrýni sína á stjórn hernaðar Bandaríkjamanna í Víetnamstríðinu. Hann hefur í gegnum tíðina verið hlaðinn orðum fyrir hugrekki sitt. McMaster hefur mikinn áhuga á hersögunni og hefur hefur hvatt til nýrrar nálgunar í hernaði sem hann m.a. beitti sjálfur í Íraksstríðinu. Framganga hans þar skapaði honum virðingu út fyrir raðir hersins.
En hver er þessi maður?
Hann heitir fullu nafni Herbert Raymond McMaster og er 54 ára gamall.
McMaster mun koma í stað Michaels Flynn sem sagði af sér sem þjóðaröryggisráðgjafi vegna samskipta sinna við sendiherra Rússa um refsiaðgerðir Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi í aðdraganda forsetakosninganna.
Hann stjórnaði m.a. hernaðaraðgerðum í Persaflóastríðinu snemma á tíunda áratug síðustu aldar og einnig í Íraksstríðinu í upphafi þessarar aldar. Þá fór hann fyrir herdeild í Afganistan sem hafði það hlutverk að koma upp um spillingu og auka gegnsæi.
Hann hefur m.a. verið sæmdur silfurstjörnunni fyrir hugrekki.
Hann útskrifaðist úr herskóla árið 1984 og lét fljótlega til sín taka í umræðum um hersöguna. Hann tók meistarapróf í sagnfræði við Háskólann í Norður-Karólínu árið 1994 og kenndi hersögu við herskóla í tvö ár. Hann lauk svo doktorsprófi í sagnfræði árið 1996.
Það sama ár gaf hann út bók um Víetnamstríðið: „Dereliction ofDuty: Lyndon Johnson, Robert McNamara, the Joint Chiefs of Staff and the Lies That Led to Vietnam.“
Í bókinni gagnrýndi hann mjög ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar og ráðgjafa hennar í tengslum við hið umdeilda stríð. Niðurstaða hans var m.a. sú að stríð hefði tapast í Washington [...] jafnvel áður en fyrstu bandarísku hersveitirnar voru sendar út á vígvöllinn,“ eins og segir í ritdómi um bókina í New York Times.
McMaster hefur hvatt til þess að nálgast hernað með vitsmunalegum hætti, þ.e. með undirbúningi, skipulagi og þekkingu að vopni.
Hann beitti þessari aðferð við stjórn hernaðaraðgerða í Írak og Afganistan. Uppskar hann aðdáun fyrir og segir m.a. í umfjöllun um hann í Time að hann sé líklega helsti hernaðarspekingur 21. aldarinnar.
Árið 2005 leiddi hann aðgerð í Tal Afar í Írak sem hefur oft verið nefnd til sögunnar sem dæmi um árangur í því erfiða og flókna stríði. Hann hertók bæinn, kom í veg fyrir að vígamenn að utan kæmust inn, og leiddi svo hermenn sína hægt og bítandi um borgarhverfin en gætti áfram að því að andstæðingarnir ættu enga inngöngu. Í frétt BBC segir að þessi aðferðafræði hafi verið ólík þeirri sem áður tíðkaðist í bandaríska hernum.
George W.Bush fyrrverandi forseti og Condoleezza Rice, fyrrverandi utanríkisráðherra, voru meðal þeirra sem hrósuðuMcMaster fyrir nálgun sína.
McMaster er líka þekktur fyrir að hafa nýtt sér þekkingu sérfræðinga í Miðausturlöndum í ráðagerðum sínum. Hann uppfræddi svo hermenn sína um flókna stöðu Tal Afar svo þeir voru vel undirbúnir er þeir létu til skarar skríða.
Hershöfðinginn reyndi að beita sömu aðferðarfræði síðar en sagði sjálfur frá því í samtali við New Yorker að stöðugt þyrfti að upphugsa nýja nálgun og beita ólíkum aðferðum.
„Þetta er svo helvíti flókið. Ef þú heldur að þú hafir fundið lausnina, þá er það rangt og þá ertu í hættu. Þú verður að vera á varðbergi, hlusta og hugsa, vera gagnrýninn og ekki síst á sjálfan þig,“ sagði McMaster í viðtalinu.
McMaster lýsti svo í viðtali við Sunday Times þeim hörmungum sem hann varð vitni í herþjónustu í Afganistan og Írak. Sagði hann m.a. frá misnotkun á börnum og hvernig al-Qaeda þjálfaði ungmenni með miskunnarlausum aðferðum.
„Ég sá ólýsanlegan hrylling,“ sagði hann. „Hluti sem þú trúir ekki að annað mannfólk geti einu sinni hugsað um. Í einu tilfellinu myrtu hryðjuverkamenn ungan dreng þar sem hann lá á sjúkrahúsi. Þeir settu sprengigildru í líkið og þegar fjölskyldan kom til að taka það heim þá sprakk það og faðir drengsins lést.“
Breski blaðamaðurinn og sagnfræðingurinn Max Hastings skrifaði í grein í Guardian árið 2007 að McMaster væri farsælasti hershöfðingi Íraksstríðsins. Fleiri hafa tekið í sama streng.
Síðasta aðgerðin sem hann stýrði var í Bagdad árið 2007 en þá fór hann fyrir herdeild sem kölluð var „heilasjóðurinn“ (e. Brain Trust) en í henni voru fleiri greinendur og fræðimenn. Deildin hafði það hlutverk að finna nýjar leiðir og lausnir í aðgerðum hersins.
Síðan þá hefur hann starfað hjá Army Capabilities Integration-stofnuninni.
McMaster var í kjölfarið hækkaður í tign innan hersins, hann er nú þriggja stjörnu hershöfðingi sem er næst hæsta staða sem hægt er að komast í hjá Bandaríkjaher.