Betra að vera guðleysingi segir páfi

Frans páfi hefur trekað sagt prestum sínum og söfnuði að …
Frans páfi hefur trekað sagt prestum sínum og söfnuði að sýna trú sína í verki. AFP

Frans páfi gagnrýndi hluta eigin safnaðar í dag þegar hann gaf í skyn að það væri betra að vera guðleysingi en að vera einn þeirra mörgu kaþólikka sem lifa af hræsni tvöföldu lífi að því er Reuters-fréttastofan greinir frá.  

„Það er hneyksli að segja eitt og gera annað. Það er tvöfalt líferni,“ sagði páfi við messu í páfabústaðnum í morgun. „Til eru þeir sem segja: ég er mjög kaþólskur og fer alltaf í messu. Ég tilheyri hinum og þessum samtökum.“

Sumir þeirra ættu hins vegar að gangast við því að lifa ekki kristnu líferni. Þeir ættu einnig að segja „líferni mitt er ekki kristið. Ég greiði starfsfólki mínu ekki almennileg laun, ég arðræni fólk, ég stunda óheiðarleg viðskipti, ég stunda peningaþvætti, ég lifi tvöföldu lífi“.

Sagði páfi þetta eiga við um marga kaþólikka og að það væri hneykslanlegt. „Hversu oft höfum við ekki heyrt fólk segja að ef þessi einstaklingur er kaþólskur þá er betra að vera guðleysingi.“

Frá því hann settist á páfastól 2013 hefur Frans páfi ítrekað sagt prestum sínum og söfnuði að sýna trú sína í verki. Messur hans í páfabústaðnum hafa líka oft vakið athygli fyrir umfjöllunarefnið, t.a.m. þegar páfi líkti ofbeldi presta gegn börnum við djöflamessu, þegar hann sagði þá kaþólikka sem tækju þátt í starfi mafíunnar bannfara sjálfa sig og eins þegar hann bað eigin kardínála að hætta að haga sér eins og þeir væru prinsar.

Þá sagði páfi tveimur mánuðum eftir kjör sitt að kristnir ættu að líta á guðleysingja sem gott fólk, ef gjörðir þeirra væru góðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert