Glæpir í Svíþjóð blásnir upp

Eyrarsundsbrúin
Eyrarsundsbrúin AFP

Margir Svíar undrast nýlegar yfirlýsingar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um hættuna sem hann segir að Svíþjóð stafi af mikilli fjölgun innflytjenda í landinu. Yfirlýsingar hans virðast reistar á vafasömum og í sumum tilvikum röngum fullyrðingum bandaríska fjölmiðlamannsins Amis Horowitz í Fox-fréttasjónvarpinu.

AFP

Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtogi Hægriflokksins, hefur furðað sig á því að Bandaríkjaforseti skuli „breiða út rangar upplýsingar og róg um vinaríki Bandaríkjanna“. Bildt sagði meðal annars að morðin sem framin væru í Orlando og Orange-sýslu í Flórída væru 50% fleiri en í allri Svíþjóð og skírskotaði til þess að Trump flutti umtalaða ræðu í Orlando-borg um vandamál Svía vegna innflytjenda.

Vandamálin ýkt

Stuðningsmenn Trumps og fjölmiðlar, sem verja hann, hafa dregið upp mjög ýkta mynd af vandamálum Svíþjóðar vegna fjölgunar innflytjenda. Þeir hafa meðal annars fullyrt að hún hafi leitt til þess að morðum, ofbeldisglæpum og nauðgunum hafi fjölgað stórlega. Tölur frá sænskum yfirvöldum benda ekki til þess að þetta sé rétt. Til að mynda má benda á að morðum hefur fækkað í Svíþjóð frá árinu 1990 þrátt fyrir mikla fjölgun innflytjenda síðan þá, eins og sjá má á meðfylgjandi skýringarmynd sem sýnir heildarfjölda morða á ári á tímabilinu 1964 til 2014.

Kveikt var í bílum í Rinkeby hverfinu um síðustu helgi.
Kveikt var í bílum í Rinkeby hverfinu um síðustu helgi. AFP

Tölur um glæpi geta breyst mikið milli ára og ekki er hægt að draga miklar ályktanir af þeim breytingum. Til að mynda fækkaði kynferðisglæpum um 11% á milli áranna 2014 og 2015 þegar fjölgun innflytjenda var mest. Bráðabirgðatölur benda hins vegar til þess að kynferðisglæpunum hafi fjölgað um 13% á síðasta ári. Endanlegar tölur eiga að liggja fyrir í lok mars.

Morðtíðnin er lág í Svíþjóð miðað við mörg önnur lönd. Hún er til að mynda um 4,5 sinnum hærri í Bandaríkjunum miðað við höfðatölu.

Svíþjóð var lengi það land sem tók við flestum innflytjendum miðað við íbúafjölda. Þorri Svía studdi stefnu sænskra stjórnvalda í innflytjendamálum og hún naut stuðnings allra hefðbundnu valdaflokkanna, meðal annars Hægriflokksins.

Viðhorf Svía breyttust mjög á árunum 2014-2015 þegar alls 244.000 manns sóttu um hæli í Svíþjóð, um 34% þeirra frá Sýrlandi og 10% frá Írak. Stjórn Jafnaðarmannaflokksins gerði þá ráðstafanir til að draga úr straumi hælisleitenda og umsóknum um hæli fækkaði stórlega.

Rangar fullyrðingar

Horowitz hélt því ranglega fram í Fox-fréttasjónvarpinu að Svíþjóð hefði tekið á móti meira en 160.000 hælisleitendum á síðasta ári. Hið rétta er að tæplega 29.000 manns sóttu um hæli í Svíþjóð það ár.

Horowitz fullyrti einnig að Svíar litu á „það sem siðferðislega skyldu sína að opna landamæri sín fyrir öllum sem vilja koma til þeirra“ en breytingarnar sem urðu á innflytjendastefnu sænskra stjórnvalda á síðasta ári sýna að þetta er ekki rétt.

AFP

Auk þess sem Horowitz fullyrti ranglega að skotárásum og nauðgunum hefði fjölgað frá því að Svíar hefðu tekið upp þá stefnu að opna landamærin fyrir öllum flóttamönnum ýkti hann ástandið í hverfum þar sem innflytjendur eru fjölmennir. „Þetta eru svæði sem lögreglumenn fara ekki inn á, vegna þess að það er of hættulegt fyrir þá. Þetta er stefna lögregluyfirvalda Svíþjóðar,“ sagði Horowitz.

Johanna Blomqvist, talsmaður sænsku lögreglunnar, segir að þetta sé ekki rétt. „Það eru engin svæði sem lögreglan fer ekki inn á. Í skýrslu frá 2015 lýsir lögreglan fimmtán svæðum sem eru sérstaklega viðkvæm. Þetta eru svæði sem einkennast meðal annars af því að erfitt er fyrir lögregluna að sinna skyldu sinni. Það hafa ekki verið gefin nein fyrirmæli um að lögreglumenn fari ekki inn á þessi svæði,“ hefur fréttavefurinn The Local eftir Blomqvist.

Malmö ekki glæpahöfuðborg

Stuðningsmenn Trumps hafa oft skírskotað til hafnarborgarinnar Malmö í þessu sambandi. Fjölmiðlar, sem verja hann, hafa jafnvel lýst henni sem hættulegustu borg Vestur-Evrópu. Um þriðjungur íbúa Malmö fæddist í öðrum löndum og það er hærra hlutfall en í nokkru öðru bæjarfélagi í Svíþjóð. Fjölmiðlarnir hafa fullyrt að múslimar úr röðum innflytjenda hafi gert Malmö að „glæpahöfuborg“.

Gögn frá glæpavarnastofnun Svíþjóðar, Brå, sýna hins vegar að þótt glæpir séu tíðari í Malmö en að meðaltali í allri Svíþjóð eru þeir færri miðað við íbúafjölda en í Stokkhólmi. Glæpum hefur almennt fækkað lítillega í Malmö á síðustu tíu árum. Morðtíðnin á Skáni, sem borgin tilheyrir, var nánast óbreytt á milli áranna 1991 og 2014.

Hefur valdið vandamálum

Þrátt fyrir allar þessar ýkjur stuðningsmanna Trumps og sumra fjölmiðla er ljóst að mikil fjölgun innflytjenda á síðustu áratugum hefur valdið verulegum vandamálum í Svíþjóð. Í að minnsta kosti þrjá áratugi hefur verið varað við hættum sem fylgja því þegar mikill fjöldi innflytjenda einangrast í einstökum hverfum og samlagast ekki sænska samfélaginu.

Ráðhúsið í Malmö í Svíþjóð.
Ráðhúsið í Malmö í Svíþjóð. Wikipedia

Sænski hagfræðingurinn Tino Sanandaji segir að um 82% innfæddra Svía séu með atvinnu, en aðeins 58% sem fæddust í öðrum löndum. Hlutfallið er enn lægra meðal þeirra sem fæddust utan Vesturlanda. Sumir innflytjendur hafa ekki fengið atvinnu, m.a vegna lítillar menntunar og tungumálaerfiðleika, og lifa á félagslegum bótum. Aðrir hafa spjarað sig og eru mikilvægir þátttakendur í atvinnulífinu.

Glæpatíðnin meðal þeirra sem fæddust í Svíþjóð er svipuð og á Íslandi en hærri í hverfum þar sem innflytjendur eru fjölmennir, þótt ástandið sé ekki eins slæmt og ætla mætti af umfjöllun sumra fjölmiðla. Lögreglan hefur átt í miklum vandræðum með glæpagengi í þessum hverfum. Þeir aðfluttu eru tvöfalt líklegri til að vera á sakaskrá en innfæddir Svíar, samkvæmt rannsókn sænsku glæpavarnastofnunarinnar. Innfæddir Svíar fremja samt sem áður langflesta glæpina í landinu.

Hætta á hryðjuverkum

Um 17% íbúa landsins fæddust utan Svíþjóðar, en aðeins 3-5% þeirra eru múslimar. Margir þeirra sem flúðu þangað frá Mið-Austurlöndum vegna ofsókna íslamista eru kristnir eða trúlausir.

Sænska öryggislögreglan Säpo telur hættuna á hryðjuverkum í Svíþjóð vera „mikla“ og hefur lýst yfir næsthæsta viðbúnaðarstigi vegna hennar. Talið er að um 300 sænskir ríkisborgarar hafi farið til Sýrlands eða Íraks til að ganga til liðs við samtökin sem kalla sig Ríki íslams og Säpo telur að 150 þeirra hafi snúið aftur til Svíþjóðar. Óttast er að þeir fremji mannskæð hryðjuverk, en það hefur ekki gerst enn.

Sænskur ríkisborgari af íröskum uppruna sprengdi sjálfan sig í loft upp á mannmargri verslunargötu í miðborg Stokkhólms í desember 2010. Tveir menn særðust lítillega í sprengingunni.

Fjöldi nauðgana ýktur

Fullyrt hefur verið í sumum fjölmiðlum að nauðgunum hafi fjölgað um 1.472% í Svíþjóð á fjörutíu árum og landið sé í öðru sæti á lista yfir lönd þar sem nauðganir eru algengastar. Aðeins Lesótó í sunnanverðri Afríku er ofar á listanum.

Slíkar fréttir byggjast oft á alþjóðlegum samanburðartölum sem eru mjög hæpnar. Samkvæmt þeim eru um 63,5 nauðgunartilvik kærð í Svíþjóð á hverja 100.000 íbúa, 27,3 í Bandaríkjunum og 27,9 í Belgíu, svo dæmi séu tekin.

Sérfræðingar segja að ekki sé hægt að nota slíkar tölur til að bera saman fjölda nauðgana, m.a. vegna þess að skilgreiningarnar á nauðgunum eru mismunandi eftir löndum. Skilgreiningin á því hvað telst nauðgun er rýmri í Svíþjóð en víða um heim. Kynferðislegt ofbeldi, sem Svíar skrá sem nauðgun, telst ekki vera nauðgun í sumum löndum, heldur líkamsárás. Skilgreiningunni var breytt í Svíþjóð árið 2005.

www.norden.org

Þar að auki eru tölurnar ekki sambærilegar vegna þess að í sumum löndum byggjast þær á fjölda þeirra sem kæra nauðgun en í öðrum á fjölda kærðra nauðgana. Þetta hefur mikla þýðingu í tengslum við heimilisofbeldi og getur skipt miklu máli í samanburðinum milli landa. Til að mynda ef kona í Svíþjóð kærir maka sinn fyrir nauðgun á hverju kvöldi í tvær vikur teljast nauðgunartilvikin vera fjórtán. Í öðrum löndum væri kæran skráð sem eitt tilvik.

Enn fremur hefur verið bent á að mikil umræða hefur verið um kynbundið ofbeldi í Svíþjóð og konur þar eru líklegri til að kæra nauðgun en kynsystur í öðrum löndum þar sem það er álitið skömm fyrir konu ef henni er nauðgað.

Rannsóknir á kynbundnu ofbeldi í Svíþjóð benda til þess að nauðganir séu álíka tíðar þar og í löndum á borð við Danmörku og Holland. Þetta og fleira sýnir að varasamt er að trúa áróðri stuðningsmanna Trumps.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert