Hvíta húsið meinaði þó nokkrum bandarískum fjölmiðlum aðgang að daglegum blaðamannafundi og var ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta fyrir vikið ásökuð um að vilja hafa aðeins í kringum sig þá fjölmiðla sem hugnast henni.
Gagnrýnir fjölmiðlar á borð við CNN og New York Times fengu ekki að taka þátt í fundi sem var haldinn án þess að vera tekinn upp á myndband eins og hingað til hefur verið gert.
Bæði CNN og New York Times hafa gagnrýnt ákvörðun Hvíta hússins harðlega.
Mun minni, íhaldssamir fjölmiðlar á borð við One America New Network, sem hafa lítið gagnrýnt bandarísk stjórnvöld, fengu að vera viðstaddir.
Trump hefur látið hafa eftir sér að fjölmiðlar séu „óvinir fólksins“.
Fréttaveiturnar Reuters og Bloomberg fengu að vera viðstaddar fundinn en AP-fréttastofan sniðgekk hann í mótmælaskyni.
Samtök fréttafólks sem fjallar um málefni Hvíta hússins segjast hafa „mótmælt harðlega“ ákvörðun Hvíta hússins. „Stjórnin mun ræða þetta frekar við starfsfólk Hvíta hússins,“ sagði forseti samtakanna, Jeff Mason.
Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sagði á fundinum að Hvíta húsið hafi boðið upp á heilmikið aðgengi í valdatíð nýrrar ríkisstjórnar.
„Við höfum lagt okkur sérstaklega mikið fram við að gera hópinn okkar og blaðamannaherbergið aðgengilegt og eflaust er aðgengið meira en fyrri ríkisstjórn bauð upp á,“ sagði hann.
Ekki er óalgengt að ríkisstjórnir repúblikana og demókrata leyfi völdum fjölmiðlum að fjalla um viðburði en þessi viðburður var aftur á móti sagður hefðbundin blaðamannafundur og opinn öllum fjölmiðlum.