Khaled Khatib, sýrlenskum kvikmyndagerðarmanni, hefur verið bannað að koma til Bandaríkjanna. Khatib er 21 árs gamall og er tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir heimildarmynd sína um stríðið í Sýrlandi. BBC greinir frá.
Myndin nefnist Hvítu hjálmarnir (e. The White Helmets) og fjallar um sjálfboðaliða sem hætta lífi sínu til að bjarga óbreyttum borgurum. Myndin er talin sigurstrangleg í flokki styttri heimildarmynda og er tilnefnd fyrir hönd Bretlands.
Heimildarmyndin er 40 mínútna löng og er gerð fyrir Netflix. Khatib er sjálfur í sjálfboðaliðasamtökunum og er einn af þeim sem tók upp myndina á landsvæðum í Sýrlandi sem eru á valdi uppreisnarmanna.
Khatib átti pantað flug frá Tyrklandi til að vera viðstaddur Óskarsverðlaunahátíðina sem verður haldin í 89. sinn aðfaranótt mánudagsins 27. febrúar.
Áður en hann steig inn í vélina tilkynntu opinberir starfsmenn bandarískra stjórnvalda honum að þeir byggju yfir upplýsingum um hann sem meinuðu honum að fara til landsins. Þessar upplýsingar geta varðað til dæmis vegabréfið eða tengsl við hryðjuverkasamtök.
Áður hafði hann sagt við CNN: „Ef við fáum þessi verðlaun sýnum við Sýrlendingum að umheiminum er ekki sama og við styðjum þá. Þetta gefur líka sjálfboðliðunum meiri kraft til að vakna á morgnana og bjarga fólki frá sprengjuregni.“
Hann sagðist ekki ætla að gefast upp þrátt fyrir að vera bannað að koma til Bandaríkjanna. Hann sagðist fullviss um að þarlendir vinir hans deildu sömu viðhorfum til mannúðamála og hann.
Þau svör fengust hjá heimavarnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, að til þess að fá að koma til landsins þyrfti ferðaleyfi.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ferðabann Donalds Trumps hefur áhrif.