„Þetta er ógn við lýðræðið,“ segir New York Times sem er einn af mörgum fjölmiðlum sem fordæma aðgerðir Donalds Trump Bandaríkjaforseta í garð fjölmiðla. Í gær meinaði Hvíta húsið þó nokkrum bandarískum fjölmiðlum aðgang að óformlegum blaðamannafundi. BBC greinir frá.
Fyrir vikið var ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta ásökuð um að vilja hafa aðeins í kringum sig þá fjölmiðla sem hugnast henni. Fundurinn var haldinn án þess að vera tekinn upp á myndband eins og hingað til hefur verið gert.
Fréttamiðillinn BBC var einn þeirra sem fékk ekki að taka þátt í fundinum líkt og CNN, New York Times, the Guardian, the Los Angeles Times, Buzzfeed, the Daily Mail og Politico.
Þeir miðlar sem fengu að sitja fundinn voru: ABC, Fox News, Breitbart News, Reuters og Washington Times.
BBC hefur óskað eftir að Hvíta húsið útskýri ákvörðun sína frekar.
„Við skiljum að í ákveðnum aðstæðum þarf Hvíta húsið að takmarka aðgang fjölmiðla. Hins vegar fellur það sem gerðist í dag [í gær] ekki inn í það mynstur,“ segir Paul Danahar starfsmaður BBC í Washington. Hann bætti við: „Við munum halda áfram að vera með sanngjarnan og hlutlausan fréttaflutning þrátt fyrir þetta.“
Bannið kom stuttu eftir að Trump hafði sagt að „falskar fréttir“ væru „óvinir fólksins“.