Sonur hnefaleikakappans fræga Muhammad Ali var stöðvaður á flugvellinum í Flórída í Bandaríkjunum við heimkomu frá Jamaíka. Hann var yfirheyrður þar í um tvær klukkustundir. Ástæðan er sú að nafn hans, Muhammad Ali Jr., þótti hljóma arabískt að sögn bandarískra fjölmiðla.
Hann var stöðvaður vegna umdeilds ferðabanns Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem beinist að ríkisborgurum sjö ríkja, þar sem múslimar eru í meirihluta, auk allra flóttamanna. En lögbann hefur verið sett á ferðabannið.
Muhammad Ali Jr. sem er 44 ára gamall er með bandarískt vegabréf enda fæddist hann í Fíladelfíu. Hann var á ferðalagi með móður sinni, Khalilah Camacho-Ali sem er seinni kona hnefaleikakappans, og Chris Mancini vini sínum, sem er lögfræðingur.
Móðir hans var einnig yfirheyrð en þó skemur en sonur hennar því hún gat sýnt mynd af sér með eiginmanni sínum, þreföldum heimsmeistara í hnefaleikum. Sonur hennar gat ekki sýnt slíka mynd og var þráspurður hvers vegna hann héti Muhammad. Hann greindi þeim frá því að hann væri múslimi líkt og faðir hans heitinn. Sá tók upp múslimska trú á ferli sínum og tók upp nafnið Muhammad Ali en hann hét áður Cassius Clay. Ali lést á síðasta ári.
Atvikið átti sér stað 7. febrúar.
„Það er skýrt að þessi uppákoma sem Ali-fjölskyldan lenti í tengist beint aðgerðum Donalds Trump gegn múslimum í Bandaríkjunum,“ sagði Mancini við fjölmiðla. Hann sagði jafnframt að Ali-fjölskyldan væri að kanna hversu margir hefðu verið stöðvar og spurðir sambærilegra spurninga, jafnframt væru þau að skoða hvort þau myndu höfða dómsmál.