Donald Trump Bandaríkjaforseti verður ekki viðstaddur árlegan kvöldverð Samtaka fréttamanna Hvíta hússins. Hefð er fyrir því að forseti Bandaríkjanna mæti í kvöldverðinn þar sem gert er góðlátlegt grín að honum. Auk blaðamanna sem fjalla um Hvíta húsið og Bandaríkjaforseta hefur frægt fólk verið duglegt við að mæta á samkomuna.
„Ég verð ekki viðstaddur kvöldverð Samtaka fréttamanna Hvíta hússins þetta árið. Ég óska öllum velfarnaðar og vonandi munið þið skemmta ykkur vel!“ tísti Trump.
Stutt er síðan hann gagnrýndi fjölmiðla harðlega og kallaði þá „óvini fólksins“.
I will not be attending the White House Correspondents' Association Dinner this year. Please wish everyone well and have a great evening!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) February 25, 2017
Stutt er síðan Hvíta húsið meinaði þó nokkrum bandarískum fjölmiðlum aðgang að daglegum blaðamannafundi og var ríkisstjórn Trump fyrir vikið ásökuð um að vilja hafa aðeins í kringum sig þá fjölmiðla sem hugnast henni.
Bæði CNN og New York Times gagnrýndu ákvörðun Hvíta hússins harðlega.