Geert Wilders kallar flokk sinn Frelsisflokkinn og vill banna sölu á Kóraninum, loka moskum og íslömskum skólum, taka upp landamæraeftirlit og banna múslímum að setjast að í landinu.
Frelsisflokkurinn (PVV) hefur mælst stærsti flokkur Hollands undanfarna mánuði en síðustu kannanir benda til þess að forskot hans hafi minnkað. Ef marka má síðustu könnunina virðist frjálslyndi hægriflokkurinn VVD jafnvel hafa unnið upp forskot Frelsisflokksins og munurinn á fylgi þeirra er innan skekkjumarka. Fylgi VVD mældist 15,2-16,9% og Frelsisflokksins 15,8-17,6%, þannig að þeir eru langt frá því að ná meirihluta á þinginu.
Geert Wilders hefur sjaldan tekið þátt í kosningafundum eða kappræðum í sjónvarpi. Þess í stað hefur hann aðallega reitt sig á farsímann sinn og beitt þeirri aðferð að vekja athygli á sér með upphrópunum á Twitter, líkt og Donald Trump hefur gert. Forystumenn annarra flokka hafa útlistað stefnu sína í löngu máli í kosningabæklingum en Wilders hefur látið nægja að birta stutta stefnuyfirlýsingu á Facebook og Twitter.
Wilders hefur ekki verið vandur að meðulum. Hann hefur t.a.m. verið gagnrýndur fyrir færslu á Twitter þar sem hann birti falsaða mynd af einum af andstæðingum sínum, Alexander Pechtold, leiðtoga frjálslynda flokksins D66. „Pechtold er að mótmæla með hryðjuverkamönnum Hamas,“ tísti hann og birti mynd þar sem flokksleiðtoginn virtist standa í miðjum hópi skeggjaðra karla sem héldu á spjöldum með vígorðum á borð við „Íslam sigrar Evrópu“. Einhver hafði notað Photoshop til að setja höfuð Pechtolds á einn af íslamistunum.
Viðbrögðin voru hörð en Wilders kærði sig kollóttan um það því að færslan hafði þjónað tilgangi sínum. Hann er með rúmlega 760.000 fylgjendur á Twitter og hundruð þeirra endurtístu færslu hans. Áður hafði Pechtold fengið morðhótun frá þjóðernisöfgamanni og ekki er líklegt að færslan hafi dregið úr hatrinu í garð flokksleiðtogans.
Sjálfur hefur Wilders ekki farið varhluta af hatri. Hann hefur verið undir vernd lögreglunnar frá því að hún komst að áformum um að ráða hann af dögum árið 2004. Flokkur hans aflýsti öllum kosningafundum sínum í vikunni sem leið eftir að skýrt var frá því að lögreglumaður hefði verið handtekinn fyrir að láta marokkóskum glæpamönnum í té upplýsingar um Wilders. Talið er að þeir vilji myrða hann vegna yfirlýsinga hans um Marokkómenn, sem hann hefur m.a. kallað „úrþvætti“.
Frelsisflokkurinn fékk 10% atkvæða og fimmtán þingmenn af 150 í síðustu kosningum árið 2012. Formlega eru þó þingmennirnir ekki í flokknum því að Wilders er eini félagi hans og hefur komið í veg fyrir að aðrir fái aðild að honum. Hann sagði eitt sinn í viðtali við Spiegel að ástæðan væri sú að hann vildi „koma í veg fyrir að rangir menn héldu flokknum í gíslingu“. Að sögn blaðsins er talað um að Wilders sé „gagntekinn af ótta við að missa stjórn“ á flokknum.
Stefnuyfirlýsing Wilders kemst fyrir á einni blaðsíðu og áhersla er þar lögð á að uppræta þurfi áhrif íslams, m.a. með því að banna sölu á Kóraninum. Hann hafði áður lagt til að bannað yrði að opna nýjar moskur í landinu en nú vill hann að allar moskur verði bannaðar. Hann leggur einnig til að íslömskum skólum og móttökumiðstöðvum fyrir hælisleitendur verði lokað. Hann vill banna innflutning fólks frá löndum þar sem múslímar eru í meirihluta, minnka framlög ríkisins til þróunaraðstoðar, auka útgjöld til löggæslu og öryggisstofnana og hyggst efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Holland eigi að segja sig úr Evrópusambandinu.
Tillögur Wilders um bann við Kóraninum og moskum samræmast ekki ákvæðum stjórnarskrár landsins og mannréttindasáttmála um trúfrelsi. Litlar líkur eru því taldar á að hann geti komið þeim í framkvæmd.
Einn reyndustu þingmanna Sósíalistaflokksins, Harry van Bommel, segir að Wilders njóti góðs af því að viðhorf Hollendinga í innflytjendamálum hafi breyst, m.a. vegna mikillar fjölgunar hælisleitenda á síðustu árum. „Hér á landi hefur verið vanmat á fjölda þeirra sem eru hræddir við íslam,“ hefur The New York Times eftir honum.
Viðhorfsbreytinguna má einnig rekja að nokkru leyti til morða á tveimur Hollendingum. Pim Fortuyn var myrtur níu dögum fyrir þingkosningar árið 2002 eftir að hafa gagnrýnt fjölmenningarstefnu, fjölgun innflytjenda og áhrif íslams í Hollandi. Tveimur árum síðar myrti róttækur íslamisti kvikmyndagerðarmanninn Theo van Gogh vegna myndarinnar Undirgefni þar sem fjallað er um kúgun múslímakvenna. Morðin höfðu mikil áhrif á hollensk stjórnmál og vöktu umræðu um mikilvægi þess að vernda málfrelsið.