Drápu tengdason Osama bin Laden

Osama bin Laden var ráðinn af dögum árið 2011. Nú …
Osama bin Laden var ráðinn af dögum árið 2011. Nú hefur tengdasonur hans verið drepinn með dróna. AFP

Einn helsti leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Al-Qaeda og tengdasonur Osama bin Laden, Abu Khayr al-Masri  lét lífið í drónaárás bandamanna í Sýrlandi í vikunni. Samtökin staðfestu þetta í tilkynningu í gær.

Samkvæmt frétt AFP var Masri talinn vera „maður númer tvö“ í samtökunum og er því haldið fram að drápið á honum gæti komið sér mjög vel fyrir ímynd Donald Trump, forseta Bandaríkjanna og öryggissveita hans.

Í tilkynningu Al-Qaeda var Masri sagður hafa verið „hetja“ og að hann hafi verið drepinn í drónaárás „krossfaranna“.

Þá er núverandi leiðtoga samtakanna, Ayman al-Zawahiri vottuð samúð vegna fráfalls Masri.

Árásin mun hafa verið gerð í eða nálægt borginni Idlib í norðvestur Sýrlandi. Bandamenn hafa bætt í árásir sínar á svæðinu upp á síðkastið en þar ráða liðsmenn Al-Qaeda í  Sýrlandi ríkjum að miklu leyti. Snemma í síðasta mánuði sagði Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna að Bandamenn hefðu drepið ellefu  liðsmenn Al-Qaeda í borginni.

Masri var þekktur fyrir aðild sína að hryðjuverkum síðustu áratugina, m.a. á sendiráð Bandaríkjanna í Kenía árið 1998.

Hann var handtekinn í Íran árið 2003 og var í haldi til ársins 2015 þegar honum var sleppt í skiptum fyrir íranskan diplómata sem hafði verið í haldi Al-Qaeda í Jemen.

AFP vitnar í Charles Lister, sérfræðing í málefnum Miðausturlanda sem segir nokkuð víst að Al-Qaeda muni reyna að hefna fyrir drápið á Masri á einhvern hátt, hvort sem það verði í Sýrlandi eða annarsstaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka