Fundu hluti í eigu Charlotte

AFP

Hvað varð um fjölskylduna? Sú spurning brennur á mörgum Frökkum og spurningin verður  æ áleitnari sem dagarnir líða. Í gær fann hlaupari fatnað og skilríki Charlotte Troadec, 18 ára, langt frá heimili fjölskyldunnar í Orvault (Loire-Atlantique). Tæpar tvær vikur eru liðnar frá hvarfi Troadec fjölskyldunnar og er málið rannsakað sem morð.

Pascal, Brigitte, Charlotte Sebastien Troadec.
Pascal, Brigitte, Charlotte Sebastien Troadec. AFP

Samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar fann hlaupari buxur Charlotte og sjúkrasamlagsskírteini hennar í vasa á buxunum skammt fyrir utan bæinn Dirinon á Bretagne. Bærinn, sem er skammt frá hafnarbænum Brest, er í 280 km fjarlægð frá heimili fjölskyldunnar í Orvault en sá bær er rétt fyrir utan borgina Nantes í vesturhluta Frakklands. Það tekur um þrjár klukkustundir að keyra þarna á milli.

Heimildir herma að foreldrarnir, Pascal og Brigitte sem eru bæði 49 ára gömul, séu frá Brest. Þegar tilkynnt var um fundinn lokaði lögreglan leiðum inn í Dirinon og var leitað bæði á landi og úr lofti án árangurs.

Lögreglan við leit í gær skammt frá Brest.
Lögreglan við leit í gær skammt frá Brest. AFP

Þrettán dagar eru liðnir síðan Troadechjónin hurfu ásamt tveimur börnum sínum, Sebastien 21 árs og Charlotte. 

Lögreglan hóf formlega rannsókn á hvarfi þeirra á mánudag og er einnig rannsakað hvort þau hafi verið numin á brott og haldið ólöglega.

Blóðblett­ir hafa fund­ist á heim­ili fjöl­skyld­unn­ar og er búið að staðfesta með lífsýnarann­sókn­um að blóðið er úr þrem­ur af fjór­um þeirra sem saknað er, að sögn sak­sókn­ar­ans Pier­re Senn­es.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu fundust blóðblettir meðal annars á farsíma Sebastiens og eins armbandsúri móður hans. Greinileg ummerki eru um að reynt hafi verið að þurrka blóðið af.

Lögreglan lokaði leiðum inn í bæinn Dirinon í gær eftir …
Lögreglan lokaði leiðum inn í bæinn Dirinon í gær eftir að munir í eigu Charlotte Troadec fundust. AFP

Leitað var ítarlega á nýjan leik í húsinu í gær að sögn saksóknara í Nantes, Pierre Sennes. Ekkert blóð hefur fundist úr Charlotte í húsinu segir Sennes. 

Lögreglan hefur lagt hald á bíla foreldranna en bíll Sebastiens hefur ekki fundist. Hvorki tannburstar né hárburstar finnast á heimilinu og eins hefur allt verið tekið af rúmum þeirra. Þegar lögregla kom fyrst í húsið fannst rúmfatnaður hangandi til þerris. Ísskápurinn var fullur af mat og eins var leirtau í eldhúsvaskinum. „Það er eins og allt lífsmark í húsinu hafi stöðvast,“ segir Sennes. 

Lögregla greindi frá því 24. febrúar að Sebastien sé grunaður um að hafa gert áætlun um að taka fjölskylduna af lífi og jafnvel sitt eigið. Nágrannar og fólk sem tengist rannsókninni segir að Sebastien glími við geðræna kvilla og að Pascal hafi glímt við þunglyndi á árum áður. 

Senn­es hef­ur staðfest að Sebastien hafi hlotið dóm fyr­ir líf­láts­hót­an­ir á bloggi sínu árið 2013. Hann var þá of ung­ur til að hljóta fang­els­is­dóm en sinnti sam­fé­lagsþjón­ustu þess í stað.

Bekkj­ar­fé­lag­ar Sebastiens segja hann hins veg­ar vera vin­gjarn­leg­an ró­lynd­is­pilt sem alltaf sé til­bú­inn að hjálpa öðrum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert