Fjöldi þeirra sem hafa verið tilnefndir til friðarverðlauna Nóbels í ár er 318 sem er næstmesti fjöldi tilnefninga í sögu verðlaunanna samkvæmt frétt AFP. Nöfnum þeirra sem tilnefndir eru til verðlaunanna er haldið leyndum í 50 ár en þeim sem tilnefna er frjálst að upplýsa um eigin tilnefningar.
Talið er að á meðal þeirra sem tilnefndir eru séu hjálparsamtökin Hvítu hjálmarnir sem starfa í Sýrlandi, Donald Trump Bandaríkjaforseti og Frans páfi að því er segir í fréttinni. Einnig sádi-arabíski bloggarinn Raif Badawi sem situr í fangelsi þar í landi, bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden og bandarísku mannréttindasamtökin ACLU.
Þá er talið að Vladimír Pútín Rússlandsforseti sé á meðal þeirra sem hafa verið tilnefndir og Jacques Chirac, fyrrverandi forseti Frakklands. Hinir tilnefndu skiptast í 215 einstaklinga og 103 félagsasamtök og stofnanir. Þetta er næstmesti fjöldi tilnefninga í sögu verðlaunanna sem voru fyrst veitt árið 1901. Mestur var fjöldinn á síðasta ári eða 376.