„Í dag myndi ég kjósa nei“

Siv Jensen, leiðtogi norska Framfaraflokksins.
Siv Jensen, leiðtogi norska Framfaraflokksins. Ljósmynd/Magnus Fröderberg / Norden.org

Tíma­mót eru framund­an inn­an Fram­fara­flokks­ins í Nor­egi ef fer sem horf­ir en bú­ist er við að flokk­ur­inn taki í fyrsta sinn af­stöðu gegn inn­göngu lands­ins í Evr­ópu­sam­bandið á lands­fundi hans í maí. Til þessa hef­ur flokk­ur­inn sem slík­ur ekki tekið form­lega af­stöðu til máls­ins en þess í stað lagt áherslu á að norska þjóðin ætti að taka þá ákvörðun í þjóðar­at­kvæðagreiðslu.

Fram kem­ur á frétta­vef norska dag­blaðsins Nati­on­en að efa­semd­ir um Evr­ópu­sam­bandið hafi hins veg­ar farið vax­andi inn­an Fram­fara­flokks­ins. Mál­efna­nefnd flokks­ins í ut­an­rík­is­mál­um legg­ur til að tek­in verði upp sú stefna að hafna inn­göngu Nor­egs í sam­bandið og enn­frem­ur að opnað verði á end­ur­skoðun samn­ings­ins um Evr­ópska efna­hags­svæðið (EES).

Lögð er áhersla á að EES-samn­ing­ur­inn hafi skipt miklu máli fyr­ir hags­muni Nor­egs. Hins veg­ar þyrfti að fram­fylgja hon­um með strang­ari hætti á sum­um sviðum en að öðrum kosti þyrfti að end­ur­skoða hann eins og seg­ir í drög­um mál­efna­nefnd­ar­inn­ar. Fram­fara­flokk­ur­inn mynd­ar nú­ver­andi rík­is­stjórn Nor­egs í sam­starfi við norska Hægri­flokk­inn.

Vill betr­um­bæta hluta EES-samn­ings­ins

Siv Jen­sen, leiðtogi Fram­fara­flokks­ins, lagði áherslu á það í ræðu sem hún flutti í morg­un á fundi fram­kvæmdaráðs flokks­ins að ekki væri verið að kalla eft­ir því að EES-samn­ingn­um yrði sagt upp. Flokk­ur­inn vildi ein­fald­lega betr­um­bæta hluta samn­ings­ins.

Jen­sen lagði enn­frem­ur áherslu á að milli­ríkjaviðskipti væru Norðmönn­um mjög í hag. Henni hugnaðist ekki að tekn­ir yrðu aft­ur upp toll­ar í viðskipt­um við Evr­ópu­sam­bandið eða önn­ur ríki í heim­in­um. Þvert á móti vildi hún sjá meiri milli­ríkjaviðskipti.

Spurð hvort hugs­an­legt væri að samþykkt yrði á lands­fundi Fram­fara­flokks­ins sú stefna að segja EES-samn­ingn­um upp sagði hún lands­fund­inn sjálf­stæðan í ákvörðunum sín­um en hins veg­ar teldi hún að breið samstaða væri um mik­il­vægi samn­ings­ins.

Ekki svar við fylgisaukn­ingu Miðflokks­ins

Jen­sen var einnig spurð að því hvort stefnu­breyt­ing Fram­fara­flokks­ins væri til­kom­in vegna þess að Miðflokk­ur­inn hefði verið auka fylgi sitt sam­hliða harðari af­stöðu gegn inn­göngu Nor­egs í Evr­ópu­sam­bandið. Sagði hún svo ekki vera.

„Þessi umræðan hef­ur lengi farið fram inn­an Fram­fara­flokks­ins,“ sagði Jen­sen. Það kæmi því ekki á óvart að þess sæj­ust merki í drög­um að ut­an­rík­is­stefnu flokks­ins og þeirri umræðu sem átt hefði sér stað í aðdrag­anda lands­fund­ar­ins.

Sjálf sagðist Jen­sen hafa greitt at­kvæði með því að ganga í Evr­ópu­sam­bandið þegar Norðmenn kusu um það í þjóðar­at­kvæði 1994. Hins veg­ar væri hún annarr­ar skoðunar í dag. „Í dag myndi ég kjósa nei.“

Evr­ópu­sam­bandið sner­ist ekki leng­ur um viðskipti og minna reglu­verk held­ur laga­setn­ingu sem ríki sam­bands­ins hefðu ekki vald yfir. „Viðskipta- og friðar­verk­efnið hef­ur orðið að skriff­in­sku­verk­efni.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert