Tímamót eru framundan innan Framfaraflokksins í Noregi ef fer sem horfir en búist er við að flokkurinn taki í fyrsta sinn afstöðu gegn inngöngu landsins í Evrópusambandið á landsfundi hans í maí. Til þessa hefur flokkurinn sem slíkur ekki tekið formlega afstöðu til málsins en þess í stað lagt áherslu á að norska þjóðin ætti að taka þá ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Fram kemur á fréttavef norska dagblaðsins Nationen að efasemdir um Evrópusambandið hafi hins vegar farið vaxandi innan Framfaraflokksins. Málefnanefnd flokksins í utanríkismálum leggur til að tekin verði upp sú stefna að hafna inngöngu Noregs í sambandið og ennfremur að opnað verði á endurskoðun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).
Lögð er áhersla á að EES-samningurinn hafi skipt miklu máli fyrir hagsmuni Noregs. Hins vegar þyrfti að framfylgja honum með strangari hætti á sumum sviðum en að öðrum kosti þyrfti að endurskoða hann eins og segir í drögum málefnanefndarinnar. Framfaraflokkurinn myndar núverandi ríkisstjórn Noregs í samstarfi við norska Hægriflokkinn.
Siv Jensen, leiðtogi Framfaraflokksins, lagði áherslu á það í ræðu sem hún flutti í morgun á fundi framkvæmdaráðs flokksins að ekki væri verið að kalla eftir því að EES-samningnum yrði sagt upp. Flokkurinn vildi einfaldlega betrumbæta hluta samningsins.
Jensen lagði ennfremur áherslu á að milliríkjaviðskipti væru Norðmönnum mjög í hag. Henni hugnaðist ekki að teknir yrðu aftur upp tollar í viðskiptum við Evrópusambandið eða önnur ríki í heiminum. Þvert á móti vildi hún sjá meiri milliríkjaviðskipti.
Spurð hvort hugsanlegt væri að samþykkt yrði á landsfundi Framfaraflokksins sú stefna að segja EES-samningnum upp sagði hún landsfundinn sjálfstæðan í ákvörðunum sínum en hins vegar teldi hún að breið samstaða væri um mikilvægi samningsins.
Jensen var einnig spurð að því hvort stefnubreyting Framfaraflokksins væri tilkomin vegna þess að Miðflokkurinn hefði verið auka fylgi sitt samhliða harðari afstöðu gegn inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Sagði hún svo ekki vera.
„Þessi umræðan hefur lengi farið fram innan Framfaraflokksins,“ sagði Jensen. Það kæmi því ekki á óvart að þess sæjust merki í drögum að utanríkisstefnu flokksins og þeirri umræðu sem átt hefði sér stað í aðdraganda landsfundarins.
Sjálf sagðist Jensen hafa greitt atkvæði með því að ganga í Evrópusambandið þegar Norðmenn kusu um það í þjóðaratkvæði 1994. Hins vegar væri hún annarrar skoðunar í dag. „Í dag myndi ég kjósa nei.“
Evrópusambandið snerist ekki lengur um viðskipti og minna regluverk heldur lagasetningu sem ríki sambandsins hefðu ekki vald yfir. „Viðskipta- og friðarverkefnið hefur orðið að skriffinskuverkefni.“